145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

opinbert útboð á veiðiheimildum.

[14:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við Íslendingar erum rík af auðlindum en við erum ekki góð í að semja um verð fyrir nýtingu þeirra. Útgerðarfyrirtæki greiða t.d. veiðigjald sem er langt undir markaðsverði. Ég tel að opinbert útboð sé skilvirkasta leiðin til þess að skila arðinum af fiskveiðiauðlindinni til þjóðarinnar og við notum nú þegar útboð á útblástursheimildum, fjarskiptatíðnisviðum og sérleyfum í samgöngum með góðum árangri. Útboð mundi draga fram sanngjarna samkeppni milli sjávarútvegsfyrirtækja og tryggja minni fyrirtækjum aðgang að kvóta. Verðið yrði það sem fyrirtækin væru reiðubúin að greiða fyrir aflaheimildirnar og yrði um leið það veiðigjald sem rynni í ríkissjóð.

Í dag geta þeir sem fá úthlutaðan kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða um 200 kr. fyrir kílóið af þorski í veiðigjald til stærri útgerða á meðan ríkið heimtir aðeins 13 kr. í veiðigjald.

Færeyingar eru að vinna að breyttu fyrirkomulagi og í síðustu kosningum unnu færeyskir jafnaðarmenn góðan kosningasigur, einkum fyrir tillögur sínar um útboð á aflaheimildum. Sérfræðingar sem unnu m.a. að tillögum Færeyinga hafa bent á að með vel útfærðu útboði gætu stjórnvöld náð fram öllum þeim markmiðum sem þau setja sér fyrir fram, svo sem skiptingu á milli skipaflokka, landsvæða og nýliðunar.

Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann hafi kynnt sér áætlanir og framkvæmd Færeyinga á útboði á aflaheimildum og hvort hann telji það ekki réttlætismál að í ríkissjóð renni stærri hlutur arðsins af fiskveiðiauðlindinni en nú er hér á landi.