145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

opinbert útboð á veiðiheimildum.

[14:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Á yfirstandandi fiskveiðiári var tillaga Hafrannsóknastofnunar um þorskveiði 21 þúsund tonni hærri en árið áður. Niðurstöður stofnmælingar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið og mælingarnar frá því í mars í ár benda til góðs ástands helstu botnfiskstegunda. Horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofnum þorsks og ýsu. Líklegt er að tillaga verði gerð í júní um aukna þorskveiði.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig honum lítist á að frekar en að skipta þeim viðbótartonnum á milli núverandi kvótahafa verði viðbótin boðin út til hæstbjóðanda. Með því fengist reynsla á framkvæmd útboða af þessu tagi ásamt markaðsverði aflaheimilda og hvort tveggja er eftirsóknarvert.