145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er sannarlega ánægjulegt að við séum hér í atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. um þetta mikilvæga mál. Verði þetta frumvarp að lögum mun það búa til öflugt leigukerfi fyrir fólk í tveimur lægstu tekjufimmtungunum og stuðla að auknu húsnæðisöryggi landsmanna. Ekki veitir af. Það er smánarblettur á íslensku samfélagi að allt of margt fólk á ekki raunverulegt heimili heldur býr í herbergjum eða ótryggu leiguhúsnæði.

Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir frábæra vinnu að þessu máli og velferðarnefnd fyrir einkar skemmtilega og góða vinnu að því. Ég er, eins og aðrir í nefndinni, ekki sátt við allt, t.d. hefði ég viljað halda núverandi nafni, sem sagt samkvæmt frumvarpinu, en ég og við í Samfylkingunni höfum ákveðið í ljósi þeirrar góðu samstöðu sem við náðum að styðja allar breytingartillögur nefndarinnar.