145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru tvær mikilvægar breytingar í 1. gr., markmiðsgrein frumvarpsins, sem er ástæða til að vekja athygli á. Annars vegar er notað annað orðalag þegar kemur að afmörkun hópsins. Í staðinn fyrir klisjuna efnaminna fólk sem átti að vera í lögunum á nokkrum stöðum er einfaldlega vísað til þeirra tekju- og eignamarka sem skilgreind eru í frumvarpinu sjálfu. Eins og hér hefur komið fram eru það þá tveir tekjulægstu fimmtungarnir sem eiga aðgang að kerfinu.

Hin síðari, og ekki síður mikilvæga, breyting er að taka sjálfa markmiðssetninguna, um að leigukostnaðurinn verði að jafnaði ekki yfir fjórðungi tekna, inn í markmiðsgrein laganna. Þetta var svona fljótandi viðmiðun eða markmið sem var lagt til grundvallar í reikningslegum forsendum en var hvergi inni í lögunum sjálfum.

Þannig að hér er lagt til að þetta meginmarkmið kerfisins verði lögbundið. Þá hljóta menn í framhaldinu að horfa til þess að þau markmið náist og eftir atvikum grípa til ráðstafana ef með þarf, til þess að þetta markmið laganna verði uppfyllt ekki síður en önnur.