145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:31]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér eru til afgreiðslu ákvæðin um Húsnæðismálasjóð og þar voru sömuleiðis lagðar til mikilvægar grundvallarbreytingar á málinu af hálfu velferðarnefndar. Ber þar fyrst að nefna að endurgreidd stofnframlög ríkisins renni beint í og byggi upp Húsnæðismálasjóð. Það flýtir því um áratugi að sjóðurinn verði til og eflist og verði sjálfbær og geti smátt og smátt tekið við sem bakhjarl þessa kerfis.

Einnig er dregið úr þeim hluta leiguhagnaðar sem eftir kann að standa í félögunum þegar þeir hafa afskrifað sitt húsnæði. Frumvarpið gerði ráð fyrir að 2/3 hlutar slíkra leigutekna rynnu í Húsnæðismálasjóð, en hér er lagt til að það verði 40%. Það þýðir á hina hliðina að félögin sjálf eflast að sama skapi ívið meira og hraðar en ella væri. Fyrir Húsnæðismálasjóði er vel séð með endurgreiddu stofnframlögunum þannig að ég tel að hér sé fundið gott jafnvægi milli beggja aðila, þ.e. Húsnæðismálasjóðs og rekstraraðila íbúðanna, að báðir aðilar (Forseti hringir.) eigi að geta orðið sjálfbærir til framtíðar í sínum rekstri.

Og lýkur með þessari atkvæðaskýringu ferðum mínum í ræðustólinn, herra forseti.