145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ljóst að við hæstv. ráðherra erum nokkuð ósammála um samninginn. Þetta er glatað tækifæri til endurbóta og framfara í íslenskum landbúnaði sem á gríðarleg sóknarfæri. Hér er um að ræða mikla fjármuni til grundvallarkerfisbreytinga sem ekki eru nýttar heldur heyktust menn á að brjótast út úr kvótakerfinu í þessari samningalotu.

Ég vil spyrja ráðherrann um það hversu bindandi samningurinn er, því að þegar ég innti eftir því hér fyrr á kjörtímabilinu var sagt að hann yrði bindandi við samþykkt fjárlaga í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps fyrir árið 2017.

Þá spyr ég hvort það sé fyrirvari í samningnum um fjárlög og hvort hann hafi þá í raun og veru ekki að fullu tekið gildi fyrr en nýr meiri hluti er kominn að á Alþingi og samþykkir ný fjárlög fyrir árið 2017, þar sem yfirlýst er að ríkisstjórnin sem nú situr hyggst ekki leggja fram og afgreiða fjárlög fyrir það ár.