145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi kvótann og það að menn vilji fara þá leið að vinda ofan af þessu — auðvitað er það athugunarvert hvort það sé rétta leiðin að afnema greiðslumark og slíkt — þá var þetta sú leið sem kom út úr þessum samningum. Hvort eitthvað annað hafi verið skoðað, ég bara treysti mér ekki, hv. þingmaður, til þess að segja til um það þar sem ég stóð örlítið fjarri þessu á þeim tíma. En í það minnsta var það niðurstaða samninganna að fara þessa leið. Það eru að sjálfsögðu tveir hópar að semja eða skiptast á skoðunum.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að mótmæla því að það megi kalla þetta útflutningsbætur. Í dag, ef ég man rétt, er verið að flytja um það bil 1/3 af framleiðslunni út; ég ætla samt að hafa fyrirvara á þessum tölum. Þannig að ég held að það sé ekki rétt að kalla þetta útflutningsbætur.

Ég held að sú leið sem varð niðurstaðan, þ.e. að byrja á þessu með endurskoðun 2019, sé (Forseti hringir.) ágætisleið. Það gefur þá bændum og ríkisvaldinu tækifæri til að sjá hvort gallar eru þarna á leiðinni.