145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af hverju ekki að setja sér einmitt þá framtíðarsýn að vera bara eitt fárra ríkja sem þarf ekki að ausa peningum í landbúnaðinn? Við erum með ágætisfordæmi. Fiskframleiðsla er auðvitað matvælaframleiðsla þó að mér finnist það stundum gleymast þegar verið er að ræða hér um fæðuöryggi og annað. Við erum ein stærsta fiskveiðiþjóð í heimi. Við gerum það án beinna ríkisstyrkja. Við gerum ýmislegt við erfið skilyrði í þessu landi án þess að við séum að ausa peningum úr opinberum sjóðum til þess. Það er hægt að bæta starfsskilyrði á margs konar hátt með því að tryggja almennan grundvöll. Ég efast um að ef við stæðum frammi fyrir því verkefni núna að fara að styrkja innlenda matvælaframleiðslu á einhvern hátt eða atvinnulíf í landinu mundum við gera það svona, setja svona rosalega mikinn pening í mjög afmarkaða þætti, sem eru mjólk og lambakjöt. En ef ég á að reyna að sjá þessa búvörusamninga í einhverju jákvæðu ljósi finnst mér ég skynja þó þá áherslubreytingu að það er verið að hverfa frá þessum framleiðslutakmörkunum til þess að opna sóknarfæri fyrir bændur, (Forseti hringir.) þá sem eru með góða vöru, á erlendum mörkuðum. Og þá, ef það gerist, vonandi, munum við geta séð, blessunarlega, tækifæri til þess að afnema svona mikla ríkisstyrki.