145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:13]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það eru nokkrir punktar sem ég vil byrja á að fagna, meðal annars þeirri lengd sem komin er á samningana og að í þeim finnist almennara stuðningsform en áður og þeirri áherslu sem lögð er m.a. á hina margs konar jarðrækt sem er í landinu og að geiturnar fái að koma þarna inn. Auk þess að hjón geti loksins í sameiningu verið skráð fyrir greiðslum.

En ég væri til í að heyra aðeins frá hæstv. ráðherra um það til hvaða svæða landsins sértækari úrræði muni ná mest, m.a. býlisgreiðslur. Og einnig hvort komin sé hugmynd um útfærslu á framleiðslujafnvæginu sem er ætlað til að sporna gegn offramleiðslu þar sem það ætti að koma til nýtingar núna um leið og samningurinn verður samþykktur. Við stöndum frammi fyrir því að það stefnir í offramleiðslu nú þegar.