145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:16]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Annað sem mig langar aðeins að spyrja út í eru nýliðunarstyrkirnir sem eiga að koma inn. Mér finnst frekar erfitt að áætla hvort þeir eigi eftir að koma vel út þar sem í rauninni er ekki búið að skilgreina orðið „nýliði“ í landbúnaði út frá þessum nýju samningum. Við eigum því eftir að sjá mögulegar útfærslur og hvort þessir styrkir verða fyrir þá sem koma nýir inn eftir að samningurinn tekur gildi, hversu stutt í faginu þeir þurfa að hafa verið þegar samningarnir taka gildi og einnig hvort þeir séu bara fyrir unga bændur eða líka fyrir eldri bændur. Við eigum í rauninni eftir að sjá útfærsluna á nýliðunarstyrknum. Ég spyr hvort ráðherrann hafi séð eitthvað fyrir sér í þeim málum.