145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Loksins, loksins má segja að við séum tekin til við að ræða þetta mál sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Gunnar Bragi Sveinsson flytur nú, sem er samningur sem fyrrverandi hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og núverandi forsætisráðherra gerði.

Það mátti sjá það í andsvörum áðan að núverandi hæstv. ráðherra er ekki alveg tilbúinn til að svara fyrir allt sem er í þessum samningi. En það ber að virða að það urðu stjórnarskipti og ráðherraskipti og stólaskipti sem komu þarna inn.

En ég segi loksins vegna þess að hér kemur fram að samningur við bændur var undirritaður 19. febrúar. Eftir tvo daga er 19. maí og þá eru liðnir þrír mánuðir frá því að samningurinn var undirritaður og þar til þetta lagafrumvarp kemur til 1. umr. Þetta er stórt frumvarp, hálfgerður bandormur, sem við eigum að ræða við 1. umr. og fer svo til þeirrar nefndar sem ég sit í, hv. atvinnuveganefndar, til yfirferðar.

Ég gagnrýni mjög hvað þetta mál kemur seint fram og hversu lítill tími okkur er ætlaður til að fara yfir það.

Af hverju segi ég það? Vegna þess sem hefur komið fram, m.a. á bændafundum. Einn fund sótti ég í Hlíðarbæ þar sem bændur í Eyjafirði komu saman. Það var mjög fjölsóttur fundur, ætli það hafi ekki verið upp undir 150 manns á fundinum þar sem forustumenn Bændasamtakanna fóru yfir samninginn með mikilli glærusýningu sem var samræmd um land allt, bæði fyrir sauðfjárræktina og eins fyrir mjólkurframleiðsluna, lítið var rætt um grænmetið en rætt var um stoðsamninginn sjálfan.

Það kom mér á óvart hve lítil umræða var um þetta á fundinum sjálfum. En það kom mér ekki á óvart eftir að ég hafði verið lengur á fundinum með nokkrum bændum sem sátu eftir eins og ég þar sem ýmislegt kom fram. Ég hugsaði með mér: Hvers vegna gerist þetta svona? Er það vegna þess að menn fengu fyrst og fremst kynningu til að taka þátt í atkvæðagreiðslu sem hófst svo skömmu seinna, rafrænni atkvæðagreiðslu, sem hér hefur komið fram að hátt í 40% sauðfjárbænda voru á móti?

Það speglar svolítið það sem maður hefur heyrt eftir á á tali manna, með hringingum og öðru slíku, að þar er greinilega ekki full sátt og sitt sýnist hverjum hvað það varðar.

Þingflokkar hafa þá reglu að bjóða fulltrúum á búnaðarþingi til kvöldverðar og menn mæta hjá flokkunum. Hjá okkur í Samfylkingunni mættu nokkuð margir bændur og við áttum saman mjög góða kvöldstund. Þar var athyglisvert að hlusta á unga bændur sem voru að taka við fjölskyldubúum, hvernig þeir voru að reyna að taka við.

Hér hefur komið fram og það er liður í þessu að menn eru að reyna að afmá ágalla í núverandi búvörusamningi, sérstaklega hvað varðar dýra mjólkurkvóta og kaup á mjólkurkvóta. Það stemmir við það sem maður hefur heyrt hjá ungum bændum sem hafa reynt að taka við búum foreldra sinna eða kaupa sig inn í greinina, hvað þetta er rosalega dýrt og hvað það er mikið háð því að bankinn láni og svo þarf að borga dýra vexti af því láni.

Það rifjaði upp fyrir mér að við gerð einhvers búvörusamningsins komu fulltrúar búnaðarsamtakanna á fund Samfylkingar og vildu dálítið mikið lesa okkur pistilinn, eins og gengur og gerist. Þar sýndu þeir samanburð á búreikningum íslenskra bænda og svo aftur bænda annars staðar í hinum norrænu ríkjum sem við berum okkur saman við. Þar voru tvö atriði sem stóðu algjörlega út af hvað þetta varðar. Það var annars vegar kvótakaup og hins vegar fjármagnskostnaður. Þar skildi mjög á milli.

Ég segi þetta vegna þess að menn telja sig mega gíra þetta svolítið niður. Í 13. gr., eða það er sennilega í 26. gr., er fjallað um það að á ákveðnum tímapunkti geti mjólkurbændur óskað eftir innlausn á kvóta sínum á tvöföldu verði og að ríkið taki að sér milligöngu og sölu.

Í samtölum mínum við bændur komu fram áhyggjur af þessari atkvæðagreiðslu. Hún var greinilega sett inn í samninginn á síðustu stundu þegar mjólkurbændur risu upp gegn þeim áformum sem rædd voru þá, og fulltrúar Bændasamtakanna kynntu okkur í þingflokki Samfylkingarinnar, að afnema mjólkurkvótann. En það breyttist svo í samningagerðinni eftir að ansi margir bændur risu upp og horfið var frá því og sett inn ákvæði um atkvæðagreiðslu eftir ákveðinn tíma meðal bænda um hvort fallið skyldi frá greiðslumarki mjólkur.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra, ef hann gæti svarað því á eftir: Hvað gerist, vegna þess að þetta er einhliða atkvæðagreiðsla og ríkið kemur ekkert að því? Bændur munu greiða atkvæði og ef bændur segja nei og vilja halda kerfinu áfram, hvað gerist þá af hálfu ríkisins? Þetta er nefnilega, eins og ég sagði áðan, einhliða atkvæðagreiðsla.

Ég spurði nokkra bændur, sem við skulum segja að séu komnir dálítið til ára sinna, hvernig þetta yrði framkvæmt. Flestallir fullyrtu að bændur mundu áfram segja nei — þetta var í raun uppreisnin sem gerð var sem var svo horfið frá og annað kerfi sett hér inn — að bændur mundu fella það að breyta þessu. En þetta kemur fram hjá rosknum bændum sem ég hef talað við, sem munu nýta sér þetta ákvæði í samningnum núna og óska eftir því að ríkið leysi til sín mjólkurkvótann og taki svo upp þau viðskipti sem á að setja í framhaldi af því sem hér er sett inn.

Ég hef ekki fengið svar við þessu enn þá. Það getur vel verið að ég fái svar við því þegar við förum að vinna þetta í nefndinni. Ég veit það ekki. Ég óttast það, vegna þess hversu lítinn tíma við höfum, að ekki munu allir sem vilja senda okkur inn greinargerðir eða umsögn um þetta frumvarp og ég tala nú ekki um það sem var rætt áðan. Ég er ekki viss um að einstök sauðfjárfélög víðs vegar á landinu muni hvert og eitt skila inn fyrir sig, en það er mikill munur eftir því hvar viðkomandi bændur eru hvernig þeir tala við mann um þennan búvörusamning.

Virðulegi forseti. Á bls. 19 er yfirlit yfir þann stuðning sem oft og tíðum er mikið gagnrýndur. Þetta er stuðningur ríkisins við landbúnaðarframleiðsluna eins og hún er. Þar kemur fram að stuðningur við nautgriparækt á þessu ári er 6,6 milljarðar kr., stuðningur við sauðfjárrækt er 4,9 milljarðar kr., stuðningur við garðyrkju er tæpar 600 millj. kr. og í rammasamninginn eða búnaðarlagasamninginn sem slíkan, í það sem þar er sett fram, fara um 670 millj. kr. Samtals gera þetta 12,8 milljarða á þessu ári. Gert er ráð fyrir að auka þurfi útgjöldin um 926 millj. og gert ráð fyrir því í framlagi ársins 2017 sem fer þá upp í tæpa 13,8 milljarða.

Eitt af því sem menn setja fram er að verið sé að gíra niður stuðninginn. Hann lækkar í 13,6 milljarða 2018 en lítil sem engin lækkun er árið 2019, það eru ekki nema nokkrir tugir milljóna sem hann minnkar um þar.

Nú skulum við hafa í huga að þessi styrkur, sem margir sjá ofsjónum yfir, er líka stuðningur við ýmsa atvinnustarfsemi sem landbúnaður er vítt og breitt um landið. Á mörgum svæðum landsins, sérstaklega í sauðfjárrækt sem er kannski eina atvinnugreinin á ákveðnum svæðum, verðum við að takast á við það og skoða þennan stuðning.

Ég er ekki að segja að hann sé alveg kolvitlaus. Það er stutt við atvinnugreinar. Hér er það gert á þennan hátt. En ég vil líka halda því til haga að þetta á auðvitað, og gerir það, að koma neytendum til góða í lægra vöruverði. Það verðum við að hafa í huga.

Þegar menn bera saman sjávarútveg og landbúnað vil ég ekki taka þátt í því vegna þess að mér finnst það ekki samanburðarhæft. Annars vegar er það sá fiskur sem sóttur er í sjóinn sem við eigum öll og er að megni til fluttur út til að skapa gjaldeyristekjur og svo hins vegar stuðningur við sauðfjárrækt eða nautarækt sem eru þá dýr sem bændur eiga sjálfir, nýta landið eftir atvikum til þess að fóðra dýrin og stunda atvinnustarfsemi sína og selja að megni til á innanlandsmarkaði.

Þetta verðum við að hafa í huga þegar við ræðum þessar tölur sem mörgum finnst svimandi háar, öðrum finnst þær allt í lagi, það fer eftir því hvar maður er á fundum um það. Þeir peningar sem koma fram þarna eru ekki stórar upphæðir. Komið hefur fram að þetta eru kannski um 0,6% af vergri landsframleiðslu eins og hún er í dag og hefur það auðvitað lækkað mikið vegna þess að verg landsframleiðsla hefur aukist mjög. Það verðum við að hafa í huga og fara í gegnum.

Virðulegi forseti. Við 1. umr. er ekki ástæða til að fara í gegnum einstaka greinar. Ég verð þó að segja fyrir mitt leyti að það eru jákvæðir punktar eins og það að mjólkurframleiðendum, og þá í þessu tilfelli MS sem er stærsti aðilinn, verða sett tekjumörk, sem ég tel rétt að gera, til þess að koma í veg fyrir það sem við höfum stundum fengið til okkar inn í atvinnuveganefnd; athugasemdir minni framleiðenda sem telja að verið sé svína á þeim með verðlagningu til þeirra sem vilja fara í samkeppni við þennan stærsta aðila í framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða á Íslandi.

Þetta er jákvætt þótt ég setji ákveðna fyrirvara við það. Ég segi stundum að maður hugsar um tekjumörk sem sett eru í raforkugeiranum, sem eru þannig að það er endalaust rifist um þær forsendur sem þar eru settar inn.

Það er líka hér, sem er auðvitað ákveðið réttlætismál og sá jafnaðarmaður sem hér stendur og talar um þetta getur engan veginn gagnrýnt, flutningsjöfnun á að sækja mjólk og dreifa mjólk, sama hvort menn eru á norðausturhorninu eða í næsta nágrenni við aðalframleiðsluna eða framleiðslu fyrir norðan á Akureyri. Það er líka jákvætt að mínu mati. Þetta eru hlutir sem við höfum talað fyrir.

Ég fagna því vegna þess að ég hef talað fyrir flutningsjöfnun á landinu sem lið í því að halda landinu í byggð. (Gripið fram í: Og komið henni á. ) Og komið henni á, þó svo að þeir sem komu á eftir hinni ágætu ríkisstjórn síðasta kjörtímabils, sem kom þessu á, hafi svikist um að hækka upphæðina. En það er gaman að koma til þeirra aðila sem nýta flutningsjöfnunina og tala um hvernig það hjálpar til í hinum dreifðu byggðum landsins við framleiðslu á ýmiss konar vöru sem þarf að flytja fram og til baka.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka gagnrýni mína á það hvað þetta frumvarp kemur seint fram. Það verður mjög erfitt fyrir atvinnuveganefnd að vinna frumvarpið svo vel sé á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi. Þess vegna er ég með fyrirvara við stuðning við frumvarpið eða einstakar greinar. Ég vil sjá umsagnir og hvet sem flesta til að senda inn umsagnir, ekki aðeins Bændasamtökin í heild sinni heldur einstök félög vítt og breitt um landið. Það er vegna þess að það fer eftir því hvort maður talar við sauðfjárbændur á Vestfjörðum, norðausturhorni eða annars staðar á landinu, hvort og hvernig þeim líst á þennan samning.

Ég vil svo taka undir það sem kom fram áðan að ekkert í þessum búvörusamningi má hvetja til offramleiðslu þannig að krafa um frekari útflutning eða niðurgreiðslur rísi upp og verða meiri. Það sem gerðist í þjóðarsáttarsamningunum 1991 um að afnema útflutningsbætur á landbúnaðarvörur okkar til að greiða niður til annarra þjóða á ekki að koma og á ekki að verða.

Ef eitthvað í þessu frumvarpi hvetur til offjárfestingar og offramleiðslu segi ég fyrir mitt leyti: Þá er illa af stað farið.