145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég tók eftir var kannski svona ein meginspurning sem hv. þingmaður bar upp og varðar hvað í rauninni gerist 2019 ef bændur fella í atkvæðagreiðslu að halda þessu ferli áfram. Markmiðið með samningnum er að þegar kemur að árinu 2019 muni menn verða farnir að sjá að þeir séu á góðri leið, þ.e. að samningurinn sé góður til lengri tíma og þar af leiðandi verði menn tilbúnir til þess að fara út úr því kerfi sem þeir hafa búið við.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hvergi kemur fram að eitthvað taki við eða eitthvað gerist komi upp sú staða að þetta verði fellt, þ.e. að menn felli það að taka af blessað kvótakerfið í þessu. Það sem gerist hins vegar er að þau stjórnvöld sem þá sitja þurfa að taka afstöðu til þess og meta hvort sú atkvæðagreiðsla sem fer fram kalli á að samningnum sé í rauninni bara sagt upp er varðar mjólkina og kerfinu breytt. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé fyrst og fremst að tala um það.

En ástæðan fyrir því að ekki er kveðið á um þetta er að menn vonast að sjálfsögðu til þess að samningarnir í heild haldi og ekki komi til þess að bændur, hvað má segja, felli þá, þ.e. vilji halda kvótakerfinu áfram. Það er svona ákveðin aðlögun eða verið er að reyna að finna leiðir í samningnum til þess að svo þurfi ekki að verða. En komi það til er það í rauninni pólitísk ákvörðun á þeim tíma hvernig menn bregðast við. Ég hefði haldið að það væri þá eðlilegt að fundað yrði með bændum á þeim tíma, mjólkurbændum, kúabændum, til að reyna að finna sameiginlega lausn sé það mögulegt til þess að þurfa ekki að segja upp þeim hluta samningsins í heild.