145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að viðurkenna að öll umræða um búvörusamninga var mér mjög framandi þangað til nýlega. Ég hef nú reynt að setja mig inn í þessi mál eins vel og ég get. Maður getur sett spurningarmerki við beinan stuðning við landbúnað og sértækar greiðslur til nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju, það er alveg réttmætt að gagnrýna það aðeins, en það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra í andsvörum áðan, að öll lönd sem við mundum bera okkur saman við eru með einhvers konar landbúnaðarstyrkjakerfi. Það fer svolítið eftir því hvernig það er gert. Öll lönd í Evrópusambandinu hafa t.d. aðgengi að landbúnaðarstyrkjum frá Evrópusambandinu, einfaldlega af því að við verðum að borða. Það er talinn hluti af grunnþörfum okkar og grunnskyldum að reyna að sjá til þess að til séu matvæli.

Ísland er í sögulegu samhengi mjög sérstakt. Hér er erfitt að rækta korn. Við breytingu á veðurfari hafa t.d. svín og sumt fiðurfé hreinlega dáið út hérlendis. Þetta er mjög harðbýlt land og Ísland hefur aldrei verið fullkomlega sjálfbært þegar kemur að matvælum. Það er mjög mikilvægt að við reynum að finna út úr því hvernig við viljum gera íslenskan landbúnað sjálfbæran og hvað það þýðir. Það þýðir aldrei að við getum flutt allt inn. Ísland er ekki sérstaklega vel til þess fallið að vera með kornrækt og þar fram eftir götunum sem fer eftir tíðarfari.

Sjálfbærni í landbúnaði þarf líka að þýða viðskiptalega sjálfbærni. Það sem er hægt að gagnrýna í þessum samningum er hversu lítið markaðurinn fær í raun að njóta vafans. Við erum að reyna að fara út úr þessu kerfi og ég fagna því að verið sé að draga úr vægi kvótakerfisins í mjólk og reyna að leggja það af. Eins og þetta kvótakerfi hefur verið sett upp, og ég hef skilið það hvað best, erum við að tala um bólu, mjólkurkvóti hækkar sífellt í verði og það hefur ekki sérstaklega góð áhrif á neytendur á Íslandi.

Að sama skapi tek ég undir gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, það er mjög mikilvægt að íslenskur skattpeningur sem fer í að greiða niður íslenskan landbúnað endi í maga íslenskra neytenda. Og þá er spurningin: Hvernig tryggjum við það? Er það sem er listað upp í þessum nýju búvörusamningum rétta leiðin? Ég set spurningarmerki við það. Hluti stafar af því hversu seint málið kemur fram og hversu seint við byrjum að ræða það. Nú eru lokadagar þingsins og þessir samningar voru víst undirritaðir fyrir nokkrum mánuðum þannig að það hefði verið hægt að koma þeim fyrr að. Á heildina litið hefði þurft miklu víðtækara samráð við gerð þessara samninga. Jú, það eru talin upp nokkur félög sem hafa verið tekin til einhvers konar samráðs en að mestu leyti eru þetta bændur í samráði við bændur í samráði við landbúnaðarráðuneytið. Það er ekki sérstaklega víðtækt samráð. Ég gagnrýni einnig að í kaflanum Mat á áhrifum er næstum ekkert talað um þau áhrif sem þetta hefur á íslenska neytendur. Ef við erum að tala um að íslenskir neytendur eigi að bera uppi þetta kerfi væri grundvallaratriði að hafa góðan kafla um það. Þar sem stór kafli er um jafnréttismat frumvarpsins væri líka gott að sjá hvaða áhrif þetta mun hafa á neytendur þar sem um er að ræða íslenskt skattfé. Það verður að fara vel með það.

Eins og ég sagði er hægt að gagnrýna hugmyndirnar um búvörusamninga. Ég ætla að láta það liggja milli hluta eins og stendur og ræða frekar efnislega um þá. Ég fagna því að þetta sé langtímasamningur. Ég tel betra fyrir íslenska stjórnsýslu, ríkið og neytendur að við séum með langtímaplön. Eitt af því sem Ísland hefur verið mikið gagnrýnt fyrir á mjög mörgum sviðum er að við getum aldrei staðið við langtímasamninga og heldur aldrei gert langtímasamninga. Kannski tengist það eitthvað veðrinu því að hér skipast skjótt veður í lofti en þess vegna er svo mikilvægt að gera þetta í miklu meira þverpólitísku samráði en hefur verið. Það er nokkuð sem er hægt að gagnrýna. Já, frábært að við séum með langtímasamninga en það vantar miklu meiri þverpólitískan stuðning við þá þegar á heildina er litið sem er ekki nógu gott. Ef þetta á að lifa af tvö þing og ef markmið okkar eiga að nást þurfum við að hafa einhvers konar þverpólitískt samráð.

Eins og ég var búin að minnast á er verið að draga úr vægi kvótakerfisins í mjólk. Ég verð að segja að þetta kvótakerfi var ábyggilega gífurleg mistök til að byrja með en ég sé ekki betur en að við séum í raun og veru að fara til baka í frekar gamaldags kerfi. Ég fékk kynningu á þessu frumvarpi bæði frá þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra og síðan frá einstaklingum innan Bændasamtakanna. Það sem ég skil ekki er hreinlega af hverju markaðurinn fær ekki aftur að njóta vafans. Af hverju fær markaðsráðandi aðili í að safna saman mjólk líka að vera á markaðnum við að búa til mjólkurafurðir, svo sem osta, skyr og jógúrt? Er þetta ekki brot á almennilegri samkeppni? Væri ekki betra að bjóða mjólkina út í einhverjum áföngum? Þá gætu t.d. ísframleiðendur boðið í ísmjólkina og þar fram eftir götunum. Það hefur verið gagnrýnt hversu markaðsráðandi hlutdeild Mjólkursamsalan hefur. Einmitt út af þessari markaðsráðandi stöðu á nýsköpun erfitt uppdráttar á þessum markaði. Það er reyndar eitt jákvætt við það, það að afurðastöðvar í mjólkurafurðum eru skyldaðar til að selja öðrum vinnsluaðilum mjólk til eftirvinnslu. Magnið getur numið allt að 5% af þeirri mjólk sem afurðastöðin tekur við. Ef fyrirkomulagið mun ekki breytast mundi ég vilja sjá þessa tölu hækka töluvert, upp í 50% þess vegna, þar sem þetta snýst um það hvort við ætlum að hafa frjálsan markað þegar kemur að öllu öðru en landbúnaðarvörum. Ef svarið er já þarf að rökstyðja það.

Ég tel mikla nýsköpun mögulega á íslenskum markaði, bæði til útflutnings og innan lands. Það er nokkuð sem við höfum séð undanfarin ár. Það væri gaman að fá að heyra álit hæstv. landbúnaðarráðherra á því hvort gagnsæ útboðsleið á mjólk væri í raun og veru skárri kostur. Hérna er lagt til að afurðastöð mjólkur verðleggi mjólk til framleiðenda og ákveði heildsöluverð á mjólkurafurðum. Í mínum augum er þetta frekar gamaldags fyrirkomulag og ég mundi frekar vilja sjá gagnsætt uppboð. Það eru mjög mikil fræði þegar kemur að svona uppboðum þannig að það er alveg vel hægt að íhuga þann möguleika. Eftir því sem ég best kemst að hefur sá möguleiki ekki einu sinni verið hugsaður. Það er mjög sérstakt að sá sem safnar saman mjólkinni sé líka markaðsráðandi þegar kemur að eftirvinnslu á mjólk. Það er nokkuð sem við þurfum aðeins að athuga.

Ég fagna einnig þessu með íslensku geitina, ég er mjög fegin að sjá að hún sé loksins komin inn í búvörusamningana því að geitastofninn á Íslandi er mjög gamall en aftur á móti líka mjög veikur.

Hið sama má segja með skógarbændur. Mér sýnist við sömuleiðis sjá ákveðna viðhorfsbreytingu þegar kemur að lífrænni ræktun og ákveðna gæðastýringu. Við erum í samkeppni og viljum helst vera í samkeppni við aðrar þjóðir að einhverju leyti, hvernig sem það nú er. Lífræn framleiðsla er heilbrigðari fyrir samfélagið og að við séum með ákveðna neytendavernd í huga þegar við erum að gera þessa búvörusamninga. Sömuleiðis þarf gæðastýringin að beinast að dýravelferð. Ég vona að eitthvað af þeim milljörðum sem eru settir í rammasamninginn í búnaðarlagasamningnum fari til þess að bæta aðstöðu, þá sér í lagi á svínabúum og fiðurfjárbúum, einfaldlega af því að aðstaðan þar er bara ekki nógu góð, eins og kom fram fyrr í vetur.

Ég fagna því að sóst sé eftir ákveðinni nýliðun, sérstaklega ef styrkir verða veittir til nýliðunar í íslenskum landbúnaði. Við þurfum líka að horfa á þetta í miklu stærra samhengi. Hér kemur fram að það hafi fækkað um 100 konur á sex ára tímabili. Það er mikilvægt fyrir samfélag sem er dreifbýlt og strjálbýlt að samgöngur séu góðar. Við þurfum að líta á samgöngukerfið okkar og samgöngunetið sem forsendu þess að við getum haldið úti öflugum landbúnaði á Íslandi. Hvar sem maður kemur á Íslandi heyrir maður að samgöngurnar séu til trafala. Konur og menn sem eru að reyna að koma upp fjölskyldu vilja auðvitað vera örugg á vegunum og raunin er ekki sú eins og stendur, síst í vesturbyggðum Íslands og sömuleiðis austurbyggðum. Vegirnir þar eru fyrir neðan allar hellur. Ég hef keyrt á betri vegum í vanþróaðri löndum upp til fjalla og það er mjög sorglegt að sjá hvernig vegakerfið hefur fengið að hrynja. Það þarf að horfa á þetta allt saman. Það þýðir ekkert að leggja ríka áherslu á stuðning við unga bændur en ekki líta á að til þess að fólk vilji í fyrsta lagi fara út í þetta og leggja það á fjölskyldur sínar að fara í svona dæmi þarf betra vegakerfi. Það er algjörlega forsendan fyrir því að börn geti sótt skóla. Það er forsenda fyrir því að það sé öruggt að keyra milli bæja. Það þarf að koma því inn í heildarmyndina þegar við erum að skoða þetta að vegakerfið þarf að lagast.

Hið sama gildir um Matvælalandið Ísland. Það er frábært að það sé verið að gera átak til markaðssetningar á íslenskum matvælum. Hins vegar þurfum við líka að hafa einhver íslensk matvæli til að flytja út. Sú spurning hefur komið fram hvernig við aðgreinum þann stuðning sem fer ofan í íslenska maga eða maga erlendis, hvernig við búum til styrkjakerfi sem aðgreinir það. Megum við það samkvæmt EES-samningnum? Það er líka spurning.

Eins og staðan er núna þarf eitthvert kraftaverk ef við ætlum að fara að flytja út meiri hlutann af íslenskum landbúnaðarvörum út af einhverju átaksverkefni. Það er alveg frábært að verið sé að kynna íslensk matvæli erlendis. Að sama skapi mundi ég vilja sjá hæstv. landbúnaðarráðherra beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að skyr yrði sérstaklega merkt, fengi gæðastimpil frá Evrópusambandinu um að einungis mætti framleiða skyr á Íslandi og einungis kalla það skyr ef það er framleitt á Íslandi. Ég held að það sé mjög mikið hagsmunamál ef við ætlum að fara út í þessa samkeppni því að skyr er, rétt eins og fetaosturinn, parmaskinkan eða serranoskinkan, eitt af því sem er háð því eða á að vera háð því að vera búið til úr innlendu hráefni, enda er skyr sögulega séð íslensk afurð. Ef við ætlum að fara út í þetta er ekki nóg að hafa bara eitthvert eitt átaksverkefni um markaðssetningu á íslenskum matvælum, það þarf að sjálfsögðu að horfa á það í miklu stærra samhengi, ekki síst hvort hægt sé að framleiða nógu mikið fyrir erlenda markaði og hvort það muni koma niður á íslenskum neytendum.

Ég undirstrika að ég sakna þess að sjá betri greinargerð um áhrif búvörusamninganna á íslenska neytendur. Það er aldrei of seint að bæta við þannig að ég vona að það muni koma í ljós við frekari umfjöllun á þessu frumvarpi.