145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að þetta verði upplýsandi andsvar, ekki svona hefðbundið. Hv. þingmaður var með mjög góðar vangaveltur og spurningar sem ég veit að mun verða svarað í meðförum þingsins að sjálfsögðu. Mig langar þó að taka af allan vafa með tvö, þrjú atriði. Hv. þingmaður tók sem dæmi kartöflur. Það er einmitt í jarðræktarhluta samninganna opnað á það að Matvælastofnun geti ráðstafað fé í ýmiss konar hluti eins og útiræktun, það geta verið kartöflur eða eitthvað slíkt, það er sem sagt verið að auka sveigjanleika þar.

Síðan var eins og hv. þingmaður væri eitthvað í vafa þegar verið var að tala um hvernig að þessu var staðið, hverjir hefðu verið í samninganefnd og annað, að sjálfsögðu átti fjármálaráðuneytið sæti í samninganefnd ríkisins af því að talað var um skattamál og slíkt.

Svona að lokum af því að hv. þingmaður nefndi dýravelferð, þá er það gríðarlega mikilvægt málefni þó að það sé rétt að ekki er talað sérstaklega um það í þessum samningi. Það er hins vegar mikilvægt að við leitum leiða til þess að taka á dýraníði, alveg sama hvar það er og hvernig það gerist. Það hefur verið skoðað í gegnum tíðina hvernig best sé að gera það. En áður en hægt er í rauninni að tengja það við greiðslur þá þarf einhvern veginn að vera hægt að skilgreina brotið eða skilgreina hvað það er sem á sér stað, verknaðarlýsinguna o.s.frv. Það hefur hreinlega kannski ekki verið gert eftir því sem ég best veit. En mér finnst mjög vel koma til greina að sú leið sem hv. þingmaður nefndi verði notuð verði menn uppvísir að því að fara illa með dýr og skepnur. En það þarf þá að vera mjög vel rökstutt að sjálfsögðu og alveg augljóst að verið sé að brjóta reglur og lög, verknaðurinn sé með (Forseti hringir.) þeim hætti o.s.frv.