145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:28]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að tollvernd á Íslandi er mjög mikil. Við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu og við erum ásamt Noregi, og reyndar var Sviss nú örugglega í þeim hópi, meðal þeirra landa sem eru með hvað hæsta tolla. Mér finnst við ekki alltaf þurfa að miða við annað, eins og hv. þingmaður segir. Ég horfi á íslenska neytendur og hvað íslenskar fjölskyldur greiða fyrir vöruna. Þá er mér alveg sama hvort Tyrkland eða einhver önnur lönd eru með einhvern tollamúr, það er bara aukaatriði. Við erum með mjög háa tolla sem gerir það að verkum að verð hér er hærra. Við gerum þetta til að vernda innlendan landbúnað og við getum bara tekið ákvörðun og sagt: Heyrðu, við ætlum að lækka þessa tolla um 50% vegna þess að við viljum lækka verð til neytenda og við viljum auka samkeppni. Í rauninni er mér næstum því slétt sama hvað tollarnir eru í Japan. Ég er að hugsa um íslenska neytendur fyrst og fremst. Það er mín persónulega skoðun að tollarnir hér séu of háir og það mundi verða til bóta ef við mundum lækka þá, ég tala nú ekki um tolla á ostum, vegna þess að ég held að það verði aldrei nein samkeppni að utan í ferskvöru eins og mjólk og jógúrt. Við erum bara það langt frá öðrum löndum að við njótum vissrar fjarlægðar og verndar hvað það varðar. Ég mun berjast fyrir því að þessi álagning, hækkaður tollur sem nú á að leggja á osta, fari ekki í gegn. Það fyndist mér ekki gott.

Mér finnst íslenskir garðyrkjubændur standa sig mjög vel og framleiða mjög góðar vörur. Ég man þá tíð áður en farið var í beingreiðslur og tollarnir voru enn við lýði að þá var paprika í rauninni lúxusvara. Ég keypti bara ekki papriku, hún var svo rosalega dýr. Ég hef ekki neitt verð fyrir framan mig, en ég ætla að leyfa mér að halda því fram að verð á þessum vörum sé ekki hærra en það var þegar tollarnir voru. Ég held að þessi ákvörðun um tollalækkun hafi verið góð fyrir neytendur. En hins vegar er það pólitísk ákvörðun að setja meiri peninga (Forseti hringir.) í ylrækt og auka hana. Ég mundi styðja það.