145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, við erum kannski ekki alveg sammála, ég og hv. þingmaður, í þessu máli. Þó að ég geti alveg verið sammála Framsóknarflokknum í mörgum málum erum við á öndverðum meiði hvað þetta varðar. Ástæða þess að við í Bjartri framtíð teljum að það geti þjónað hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið er einmitt sú að við séum þá hluti af því tollabandalagi sem það er. Og ástæðan fyrir því að margir vilja ekki fara er að þeir vilja einmitt vernda íslenskan landbúnað og hafa áhyggjur af því að það væri ekki gott fyrir íslenskan landbúnað ef við mundum fara inn í þetta tollabandalag.

Ég er ekki að leggja það til að við afnemum tolla einn, tveir og þrír af öllum vörum og ég hef lagt það til að við byrjum t.d. á að afnema tolla á þeim vörum sem ekki eru framleiddar á Íslandi. Þannig væru þær ekki í beinni samkeppni við íslenska framleiðslu.

Ég held að það sé ekkert hættulegt að fara í þá aðgerð að lækka t.d. tolla á ostum um helming, að taka þetta í einhverjum skrefum og fylgjast með og sjá hvað gerist. Ég held að það yrði ekki stóralvarlegt þó að þeim ostum sem Mjólkursamsalan framleiðir í dag mundi fækka eitthvað vegna þess að þá yrði væntanlega hætt að framleiða þá osta sem eru minnst vinsælir og aðrir kæmu í staðinn. Ég held jafnvel að með því að lækka tolla á ostum og auka innflutning mundum við borða meira af ostum. Ef ég fæ ekki góða spænska ostinn sem mig langar í eða ég tími ekki að kaupa hann af því að hann er svo dýr þá fer ég ekki beint í sveppasmurostinn í staðinn. Þá kaupi ég bara engan ost. Það gæti hreinlega aukið neyslu á ostum ef við mundum flytja inn osta og auka úrvalið. Það yrði líka meira aðhald fyrir þá framleiðendur sem hér eru að þeir mundu framleiða þá osta sem neytendur vilja í raun borða.