145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum búvörusamninginn sem liggur fyrir, breytingu á búvörulögum. Eftir að hafa skoðað þá samninga sem eru hér undir styrkist ég enn frekar í þeirri trú að ekki sé hægt að samþykkja samningana óbreytta. Þeir eru það gallaðir að mínu mati að það þarf að endurskoða þá, þótt auðvitað sé það mismunandi eftir því um hvaða samninga er að ræða. Það hefur komið fram um sauðfjársamningana að það er enn mjög mikil gagnrýni á þá. Varðandi samninga sem snúa að mjólkurframleiðslu hefur þeim hluta samningsins í raun verið frestað um tvö ár og afnámi kvótakerfis í mjólkurframleiðslu og bændur hafa þann möguleika árið 2019, samhliða fyrstu endurskoðun samningsins, að greiða atkvæði um hvort kvótakerfið í mjólkurframleiðslu verði afnumið. Í upphafi var ætlunin að það yrði gert en vegna mikillar gagnrýni og vankanta á því, vegna afleiðinga þess, varð niðurstaðan að fresta því um tvö ár. Í raun geta þeir bændur sem vilja innleysa greiðslumarkið nýtt sér það og ríkið mun þá innleysa mjólkurkvótann á fyrir fram ákveðnu verði og bjóða svo til sölu á sama verði. Þá hafa nýliðar vissulega möguleika á að kaupa en síðan verður ekki um það að ræða að mjólkurkvóti gangi kaupum og sölum.

Það má alveg taka undir það að þessi mikla kvótasetning hefur galla, en það er líka innifalin í henni ákveðin framleiðslustýring. Hún skiptir máli upp á að ekki sé stefnt í offramleiðslu sem bitnar á öllum framleiðendum, ef menn fara of geyst í þeim efnum. Þá lækkar verðið til framleiðenda sem samsvarar því, þótt menn vinni reyndar að því núna að auka markaðssetningu á afurðum erlendis, en það sér enginn fyrir hvað verður í þeim efnum. Á það sérstaklega við um sauðfjárhluta samningsins.

Ég segi fyrir mína parta ef ég tek aðeins út fyrir sviga og ræði sérstaklega sauðfjárhlutann að við þingmenn höfum fengið á okkar fund formenn félaga sauðfjárbænda, t.d. af Vestfjörðum og af Ströndum, sem hafa lýst miklum áhyggjum af því að eins og samningarnir eru bitni þeir mjög hart á jaðarsvæðum sem eingöngu eru með sauðfjárrækt og ýti undir að búskapur leggist af á þeim búum, vegna þess að það stefnir í það mikla skerðingu á beingreiðslum til þeirra bænda á þeim tíma sem fram undan er. Það er talað um að meðalbú t.d. í Strandasýslu missi beingreiðslu eða stuðning upp á 1 milljón á ársgrundvelli. Það er gífurleg skerðing og riðlar öllum greiðsluplönum bænda. Bent hefur verið á að sú nýliðun sem hefur orðið í sauðfjárrækt, þar sem menn hafa reitt fram fjármagn til að kaupa sig inn í greinina, riðlist og allar forsendur séu þá brostnar í þeim efnum, fjárhagslegar skuldbindingar og annað, miðað við að draga eigi svo hratt úr beingreiðslum næstu tíu ár.

Þau svæði sem byggja mikið á sauðfjárrækt, Vestfirðir í heild sinni, Norður-Þingeyjarsýsla og önnur svæði sem nefna má, bæði Húnavatnssýsla og Skaftafellssýslur, þola ekki svona mikla skerðingu. Það er ekki hægt að horfa til einhverrar endurskoðunar eftir tvö ár, það er aðeins verið að teygja á því að þessi bú stofni til enn meiri skulda, núna strax horfa menn til þess hver framtíðin verður og hvort þeir eigi að halda áfram miðað við að þessi samningur taki gildi.

Ég tek því heils hugar undir það sem bændur sem tala fyrir sauðfjárbændum á þessum jaðarsvæðum segja, að freista eigi þess að ná fram betri samningum og bíða þar til ársins 2023 með að ganga frá samningum og horfa þá til þess hvernig markaðsátak varðandi afurðir gengur, það er verið að reyna að markaðssetja lambakjöt erlendis, sjá hvað kemur út úr því, en vera ekki að tengja þetta markaðsátak með beinum hætti inn í búvörusamningana. Það er stórhættulegt vegna þess að samningarnir eru líka byggðastefna og það á að horfa á veikustu svæðin þar sem sauðfjárrækt er stunduð. Þetta er svo stór hluti, búvörusamningurinn og sauðfjárhlutinn, af forsendum þess að mögulegt sé að stunda sauðfjárbúskap á þessum svæðum og lifa af því, því að mörg svæðanna bjóða ekki upp á nokkra möguleika á því að menn geti aflað sér annarra tekna meðfram sauðfjárbúskap.

Mér finnst samningarnir, hvort sem við tölum um mjólkurhlutann eða sauðfjárhlutann, stuðla að mikilli samþjöppun. Horft er til þess að auka enn á samþjöppun í þessum greinum og þar með fer stuðningurinn til færri aðila. Þakið þyrfti að vera enn þá neðar, þar sem stuðningi ríkisins lýkur. Sauðfjárbændur hafa rætt að í samningunum sé ákveðinn hvati til þess þegar þetta frelsi verður með þessum hætti að sauðfjárrækt fari inn á önnur landsvæði, kannski á landsvæði sem hafa verið öflug í mjólkurframleiðslu, eins og Suðurlandið. Þar auki menn sauðfjárhlutann á búum sínum sem dragist þá saman á þeim svæðum sem eru jaðarsvæði og þola ekki þá miklu skerðingu á beingreiðslu sem fram undan er. Það er alls ekki gott ef við horfum til umhverfissjónarmiða og beitilanda á þeim svæðum á Suðurlandi sem hafa verið nefnd, gosbelti og viðkvæm svæði gróðurfarslega séð sem á ekki að beita fé á. En önnur svæði sem eru góð til fjárræktar eru ekki nýtt sem skyldi.

Einnig hefur verið bent á að í samningnum sé horft til þess að koma með fjárfestingarstuðning við sauðfjárrækt á móti, en skilgreining á þeim svæðum liggur ekkert fyrir, t.d. á Ísafjarðarsýslum sem koma mjög illa út úr samningum um sauðfjárrækt. Það liggur ekki fyrir hvort Ísafjarðarsýslur séu skilgreindar sem veik svæði þegar kemur að sauðfjárrækt og hvort einhver stuðningur komi inn á móti. Fyrir utan það er þessi stuðningur aðeins dropi í hafið miðað við þær skerðingar sem munu verða vegna þess að beingreiðslur skerðast mikið á næstu tíu árum, um allt að 20%. Það kippir algjörlega rekstrargrundvelli undan þeim sauðfjárbúum sem eru á þessum svæðum.

Mér finnst það ekki góð byggðastefna, í raun fjandsamleg byggðastefna, sem birtist í þeim hluta sem er undir sauðfjárrækt í þessum samningi. Ég skil ekkert í framsóknarmönnum, sem fyrst og fremst bera ábyrgð á þessum búvörusamningum, að ætla að keyra þennan samning í gegn eins og hann liggur fyrir vitandi hvers konar byggðaröskun getur orðið í framhaldi af því. Það verður ekki aftur snúið fyrir fólk í sauðfjárrækt í þeim svæðum sem þola síst mikla skerðingu ef það ákveður að bregða búi vegna þess að það er ekkert sjáanlegt atvinnuöryggi eða rekstrargrundvöllur miðað við þær skerðingar sem fram undan eru. Það er ekki auðvelt að fara til baka í tíma og kalla til þá sem hefðu að öllu óbreyttu viljað halda áfram búrekstri.

Mér finnst það mikill ábyrgðarhluti af stjórnvöldum að keyra þennan samning áfram eins og hann liggur fyrir. Það má líka gagnrýna að ekki sé tekið enn fastar á umhverfisþáttum í samningnum, sem hefði vissulega verið mikið tækifæri til að gera. Þá vil ég horfa til þess sem verður rætt í framhaldinu og tengist þessu máli, sem eru tollar gagnvart Evrópusambandinu. Framleiðsla á matvælum innan lands skiptir gífurlega miklu máli. Menn sem hafa gagnrýnt verndartolla gleyma oft því samhengi hlutanna að það er mikið umhverfismál að geta framleitt sem mest af afurðum hér heima, þótt stuðningur komi til, vegna þess að flutningur landbúnaðarafurða heimsálfa á milli mengar gífurlega.

Mér finnst það hafa alveg dottið upp fyrir í umræðunni, hvort sem er innan þings eða utan, hvers lags mengun fylgir því að flytja landbúnaðarafurðir um langan veg. Í staðinn ætti að framleiða þá landbúnaðarafurð sem hægt er að framleiða hér á landi, þótt stuðning þurfi til. Það ætti að styðja við þá framleiðslu eins og kostur er. Ég held að við þurfum að horfa á þetta allt í „glóbal“ samhengi, hversu skynsamlegt það er að við Íslendingar styðjum við framleiðslu innan lands og hvernig það nýtist neytendum þegar upp er staðið. Það gleymist oft að sá stuðningur við landbúnað sem verið hefur í gegnum tíðina á að vera beintengdur neytendum innan lands, þeir eiga að sjá þess merki í vöruverði. En það er algjörlega snúið af þeirri braut með þessum samningum, með því að stefna í offramleiðslu og útflutning. Ég held að íslenskir neytendur og íslenskir skattgreiðendur séu ekki hlynntir því að verið sé að fara að niðurgreiða íslenskar landbúnaðarafurðir til neytenda erlendis, enda hefur það ekki verið gert hingað til og ætti ekki að vera þannig. Til þess að við náum sem breiðustum stuðningi og samstöðu í því að styðja íslenskan landbúnað þarf (Forseti hringir.) að vera bein tenging við ágóða íslenskra neytenda í því samhengi og umhverfissjónarmið.