145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:06]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef engar áhyggjur af kjötfjöllum og mjólkurfjöllum. Ég hef engar áhyggjur af því að framleiðendur framleiði þannig að hér verði fjöll og umframbirgðir. Það gerist ósköp einfaldlega þannig að framleiðandi framleiðir of mikið og verð lækkar, væntanlega stillist framleiðslan einhvern tímann af. Það er bara eins og í annarri framleiðslu að ríkið á ekkert að fínstilla framleiðslu, hvorki framleiðslu á vörum né þjónustu. Það gerist bara ósköp einfaldlega með því að kaupendur og seljendur ná samkomulagi um verð og magn. Þetta 75 ára gamla kerfi, ef fæðingardagurinn er réttur, 1942, er bara komið út í tóma vitleysu. Það að fólk sem vill hefja landbúnaðarframleiðslu þurfi að kaupa sig inn í greinina — bíddu, um hvað erum við að tala? Ef fólk vill kaupa sig inn í greinina, af hverju getur það ekki bara hafið framleiðslu á einhverju öðru eða tekið til við eitthvað annað?

Ég geri mér vissulega grein fyrir byggðaþróun í landinu, því að landið skuli vera að sporðreisast á þann veg að 70–80% af þjóðinni búi hér á Suðvesturlandi. Það kann að vera, ef áhrifamiklum aðgerðum verður beitt, að það leiði til þess að byggð í landinu dreifist. Menn verða ekki endalaust með þessa ofboðslegu áherslu á landbúnaðarframleiðslu eins og það eigi að leysa eitthvað. Landbúnaðarframleiðsla hefur á undanförnum árum ekki leyst nokkurn skapaðan hlut af byggðavanda í landinu. Ég benti á það hér í ræðu minni. Mjólkurframleiðendum hefur stórfækkað, og ekki hefur það bætt byggðavanda.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi staðið við tímamörk.