145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:10]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Menn eru alltaf að þakka hér fyrir spurningar og svör. Ég ætla bara að segja að ég tel að hver sú þjóð sem leggur tolla á innfluttar vörur í sínu landi rýri lífskjör þegna sinna fyrst og síðast. Það að tollar séu í öðrum löndum kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Það er til svolítið sem heitir hlutfallslegir yfirburðir í framleiðslu. Ef eitt land hefur hlutfallslega yfirburði þá hefur annað hlutfallslega yfirburði á öðrum sviðum. Við breytum því ekki með tollum. Við rýrum bara lífskjör. Varðandi þessa magntolla sem um er rætt þá tel ég af augljósum ástæðum, sem ég rakti í ræðu minni varðandi til dæmis hráefni til iðnaðar í ísgerð og í súkkulaðiiðnaði, að við séum fyrst og fremst að rýra þessar atvinnugreinar. Þannig að hvort ég leggst á sveif með ykkur eða hvort hv. atvinnuveganefnd vinnur sína vinnu — það er nú gjarnan þannig að þegar afstöðu mína til landbúnaðar ber á góma þá má ég mín lítils og minn stuðningur má sín enn minna. Það breytir því ekki að það sem hér hefur verið að gerast á undanförnum 70 árum hefur ekki bætt byggð í landinu. Ég segi enn og aftur: Menn skulu fara að hugsa eitthvað nýtt í þessu máli.

Svo að ég ljúki þessari umræðu minni um beingreiðslur eða þennan nýja kafla í búvörusamningnum: Samningurinn nær yfir 12 ár. Ég er ekkert viss um að við sitjum hér öll í 12 ár og við erum að binda hendur þingsins í 12 ár. Er það þingræðislega eðlilegt? Ég segi nei.