145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er ekki tilviljun að heiti tveggja atvinnugreina eru í ráðuneytisnöfnum, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það er vegna þess að hér hafa starfað um árabil og áratugi sérstaklega tveir stjórnmálaflokkar sem hafa lagt sig eftir því að gæta sérstaklega hagsmuna þessara tveggja atvinnugreina og það tel ég að hafi verið á kostnað annarra atvinnugreina í þessu landi.

Ég held að það sé örugglega rétt hjá mér, virðulegi forseti, þótt mér hafi ekki unnist tími til að fletta því upp, að fyrir einhverjum árum síðan, níutíu og eitthvað, hafi verið uppi tillögur um að sameina öll atvinnuvegaráðuneyti í eitt ráðuneyti sem yrði kallað atvinnuvegaráðuneyti. Það hafi kannski ekki síst strandað á því að menn máttu ekki til þess hugsa að leggja niður þessi heiti á ráðuneytum, landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti.

Síðustu árin hefur hagsmunagæsla sjávarútvegsins fyrst og síðast snúist um að halda eðlilegum arði af þeirri atvinnugrein og þeirri starfsemi sem þar fer fram frá eigandanum, frá þjóðinni, frá fólkinu í landinu og á meðan hafa þeir sem hafa haft leyfi til að veiða og nýta fiskinn úr sjónum getað sópað til sín mjög óeðlilegum gróða. Þetta hefur verið á kostnað lífskjara okkar allra í landinu og á kostnað velferðarkerfisins í þessu landi.

Það gegnir öðru máli um landbúnaðinn, virðulegi forseti. Hann þarf að styrkja og hann þarf að styðja. Gallinn er sá að þegar fólk gagnrýnir það sem ég vil segja að sé trénað kerfi í kringum landbúnaðinn, trénað og gamalt kerfi, gamaldags, er það alltaf sakað um að vera á móti landbúnaði, að vera á móti byggð um allt land, að vera á móti bændum. Þetta er allt ósatt, virðulegi forseti. Það er hins vegar full þörf á því að endurskoða það mjög nákvæmlega hvernig við ætlum að styðja við landbúnaðinn.

Þegar þessi samningur var fyrst kynntur upp úr áramótum — og þetta er ekki lítill samningur, við erum að tala um 160 milljarða í beinar greiðslur á tíu árum — var sagt að það ætti að afnema kvótakerfið í mjólkurframleiðslu. Kunnáttumenn sögðu mér, karlar og konur sem ég tek mark á, að það væri ýmislegt til vinnandi til að afnema kvótakerfið í mjólkurframleiðslunni. Þess vegna mætti kannski horfa fram hjá ýmsu ef það tækist.

Virðulegi forseti. Þessi samningur sem er gerður á milli bænda og ríkisins, ekki neytenda, ekki okkar sem kaupum matinn, ekki okkar sem borgum skattana, heldur milli ríkisins og bænda, er ekkert lengur um það að afnema kvótakerfið í mjólkurframleiðslu. Hann er til tíu ára. Það á að endurskoða hann eftir fimm ár. Það á að byrja að vefja ofan af kvótakerfinu eftir að hann hefur verið endurskoðaður. Hverjir eiga að fá að ákveða það hvort hann verði endurskoðaður eða ekki? Bændur. Þeir eiga að ganga til sérstakrar atkvæðagreiðslu um það hvort samningurinn, sem menn segja að sé svo merkilegur af því að hann sé til þess að afnema kvótakerfið í mjólkurframleiðslu, verði endurskoðaður. Og hinir, við fólkið og hinir sem gerðu samninginn, ríkið, við höfum ekkert um það að segja, ekki neitt. Það eru bara bændur sem munu ákveða það.

Það má enginn halda að mér sé í nöp við bændur. Mér er ekki í nöp við bændur. En það á enginn í landinu að geta samið svona fyrir sjálfan sig. Það á enginn að geta gert það. Fólkið í verkalýðshreyfingunni getur ekki gert það. Ég heyrði einhvern segja áðan að það væru nú listamenn sem við styrktum, við styrktum Þjóðleikhúsið og við gerðum þetta og við gerðum hitt og vildi líkja þessu við það. En það er allt annað mál, virðulegi forseti. Það er allt annað mál að styðja við menninguna eins og við gerum eða halda áfram að gera trénaða, gamaldags samninga við bændur. Við eigum að gera nýja samninga við bændur og við eigum að gera þá eftir þeim aðferðum sem tíðkast árið 2016, en ekki þeim aðferðum sem tíðkuðust árið 1950, árið sem ég fæddist.

Það er virkilega þannig að sagt er um samninginn: Jarðræktarstuðningur er aukinn verulega og gerður almennari. Landgreiðslur: Almennur stuðningur á ræktarland sem er ekki bundinn ákveðinni framleiðslu. Stuðningur við lífræna framleiðslu tífaldaður frá því sem nú er. — Tífaldaður. Hvað er hann nú? Er hann núll? Þá er hann núll þó að hann sé tífaldaður. Eða er hann einn eða tveir? Það skiptir máli hvað þetta er hátt. Það er allt falið hér. — Nýliðunarstuðningur er allur fluttur í ramma, aukinn og gerður almennari. Svo í samtölum eru allir voða glaðir yfir því að það eigi að styrkja geitabúskapinn. Ég er mjög ánægð með það. Ég tel að við eigum að styrkja geitabúskap og ég tel að við eigum að leyfa fólki sem býr til geitaosta og þar fram eftir götunum að selja þær afurðir. En við bönnum það af því að við viljum hafa þetta allt undir tukt og við viljum ekkert að þeir sem koma sér eitthvað áfram og finna upp eitthvað nýtt njóti þess. Þetta hefur tekið okkur mörg ár og loksins ætlum við að fara að láta það hugrakka fólk njóta einhvers úr almennum sjóðum sem ég er sammála að verði gert.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á greiðslur til sauðfjárbænda. Mér finnst skrýtið að það megi ekki taka tillit til ákveðinna sjónarmiða. Einhver sagði mér það, af því að ég spurði: Er ekki tekið tillit til þess í þessum tillögum sem snerta sauðfjárbændur að það er kannski betra frá umhverfissjónarmiði að vera með sauðkindur á einu landsvæði en öðru, ef ég má orða það svo? Vegna þess að við vitum alveg hvernig blessuð sauðkindin hefur farið með landið okkar. Þá er svarið: Nei, það er ekki hægt að gera það. Það er ekkert tillit tekið til þess í þessum samningum að landsvæði eru mishentug til að vera þar með ákveðnar búgreinar. Af hverju er það ekki gert? Af hverju höfum við það þannig að menn geti farið í grösugar sveitir með sauðfé í stað þess að vera einhvers staðar þar sem það hentar betur fyrir blessaðar kindurnar að athafna sig? Hvers vegna gerum við það?

Annað sem ég skil ekki er að menn tala mikið um að auka virði afurða sauðfjár, það þurfi að auka virði afurðanna af því að við ætlum að reyna að selja útlendingunum sem hingað koma meira. Vissulega þurfum við að gera það og eiginlega skrýtið hvað okkur tekst ekki vel upp í því. Ég er ekki að kenna neinum um, þetta var bara athugasemd. En hins vegar ætlum við líka að auka útflutning á þeim. Ég vil vara við því að við förum að auka mjög stuðning við einhverjar búgreinar hér í landi af því að við ætlum að flytja meira út af þeim afurðum. Það hefur verið minnst á það fyrr í dag að fyrir mörgum árum var beinlínis hægt að sýna fram á það að við vorum að borga fyrir útflutning, já, og þá borguðum við meira að segja útflutningsbætur á kjöt sem var flutt úr landi. Þannig að ef menn fluttu afurðir úr landi fengu þeir einhvern aukaaur, held ég. Það er nú búið. En við verðum að passa okkur á því að fara ekki inn á þá braut að við séum að greiða niður til bænda til þess að við getum flutt út. Ég vil leggja sérstaka áherslu á það. Ég held að það hljóti að vera þannig að nefndin sem fær þetta mál til sín setji það alveg skýrt fram fyrir okkur hin og sýni fram á að ekki sé verið að gera það.

Síðan er náttúrlega áfram í þessum samningi eins og hingað til haldið verndarhendi yfir Mjólkursamsölunni og því havaríi öllu saman. Enn þá skal það vera þannig að enginn greinarmunur sé gerður á því hvert mjólk er sótt o.s.frv. Þetta kostar allt. Auðvitað er það alveg rétt að ef það væri ekki þannig þá dyttu út einhverjir bæir sem eru mjög afskekktir og það væri ekki hægt að sækja mjólk þangað tvisvar eða þrisvar í viku og í hvaða veðri sem er. Ég held að það séu ekki skröksögur að á afskekktustu býlunum þurfi stundum að hella niður mjólkinni vegna þess að mjólkurbíllinn kemst ekki. Auðvitað yrði það erfitt fyrir þá sem búa svo afskekkt. En þá þurfum við að bæta það öðruvísi. Þá þurfum við að bæta það því fólki sem býr við þær aðstæður á annan máta en þann að framlengja og halda uppi þessu kerfi. Ég væri til í að standa að slíku, virðulegi forseti.

Þetta er veigamikið frumvarp og ég þarf náttúrlega ekki að segja forseta frá því. Hann hlýtur að heyra að ég fer yfir þetta á hundavaði. En mig langar samt að minnast annars vegar á það, eins og ég sagði, að við erum að borga hérna 160 milljarða á tíu árum. Það eru 12, 13, 14 milljarðar á ári. Síðan ætlum við að borga, það er sérstök upphæð, ég held svei mér þá að hún sé 16 milljarðar, sérstaklega til bænda þannig að þeir geti haldið uppi starfsemi til að fylgjast með þessu öllu saman. Hvaða atvinnugrein hefur slíka þjónustu frá ríkinu? Hins vegar er það náttúrlega tollverndin. Hún er upp á eina 9 milljarða á ári. Sumir hafa reiknað út vinnsluvernd sem er meira en það, Ég ætla ekki að fara ofan í það hugtak, en það eru menn sem segja að það sé einhver vinnsluvernd. En ég ætla að halda mig við tollverndina sem er níu komma eitthvað milljarðar á ári.

Síðan kemur það í þessum samningum að nú þarf að hækka tollvernd á osta. Það þarf að uppfæra tollana. Þeir magntollar sem lagt er til að verði uppfærðir til samræmis við verðlagsbreytingar eru á svokallaðar viðkvæmar vörur, undanrennu- og mjólkurduft auk osta. Mér er sagt, virðulegi forseti, að þetta sé 100% hækkun á tollverndinni. Þykja okkur nú innfluttir ostar nógu dýrir samt.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.