145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:10]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að taka þátt í umræðu um búvörusamninginn. Það er ekki ónýtt að koma hingað á eftir hv. þm. Haraldi Benediktssyni sem kann þetta líklegast betur en margur annar hér inni. Ég get tekið undir mjög margt, ef ekki flest, af því sem hann fór yfir. Þó er þessi samningur ekki frekar en aðrir þannig úr garði gerður í bili að við getum fellt okkur við hann að öllu leyti, enda er það svo að þegar atkvæði voru greidd um hann á meðal þeirra sem hann varðar kom í ljós í fyrsta lagi þátttökuleysi bænda í atkvæðagreiðslunni. Tæplega 1.700 taka þátt í sauðfjársamningunum en á kjörskrá eru tæplega 3.000 og af þeim eru aðeins 60% sem samþykkja hann. Það segir okkur að það er mikill ágreiningur um þann samning. Það er eitt af því sem við vinstri græn höfum slegið varnagla við í umræðunni í dag og sagt að þurfi að fara betur yfir og helst þyrfti að vísa honum heim í ráðuneyti aftur til að fara betur yfir hann.

75% samþykkja hins vegar nautgripasamninginn. Þar er líka meiri þátttaka, hún var tæplega 71% en ekki nema 56% hjá sauðfjárbændum.

Þetta eru samningar við bændur sem hér eru undir og þeir eru eiginlega fjórir og eiga að gilda í tíu ár, eins og hér segir. Þetta er rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins og samningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og svo garðyrkjunnar.

Gert var ráð fyrir í þessu að kvótakerfið í mjólkurframleiðslunni og sauðfjárrækt yrði lagt niður en sem betur fer var tekin ákvörðun um að halda núverandi stöðu óbreyttri í einhvern tíma, vissulega með atkvæðagreiðslu árið 2019, þ.e. bændur geta óskað eftir því að afnám kvótakerfisins verði sett í atkvæðagreiðslu meðal bænda það ár. Það er líka afnám framleiðslustýringar og eins og hefur komið fram í dag og kom fram áðan hjá hv. þingmanni varðandi útflutningsbæturnar, og ég verð að taka undir það með honum, það er eitt af því sem við viljum ekki sjá, alla vegana ekki ég. Ég mundi vilja sjá innlenda framleiðslu styrkta til muna og hún á auðvitað að skila sér í lægra verði til neytenda. Eins og hv. þingmaður kom inn á virðist það einhverra hluta vegna ekki hafa gerst.

Ég verð að taka undir það sem hann sagði um ástandið í kringum okkur. Það er held ég í síðasta Bændablaði sem talað er um m.a. ástandið í Danmörku þar sem um 200 bændur hafa farið á hausinn, hafa orðið gjaldþrota. Ekki hefur mælst eins mikið af gjaldþrotum í Danmörku í þessum greinum síðan 1994. Það er fyrst og fremst vegna þess að verðið er svo lágt fyrir mjólkina og svínakjötið. Það er það sem við flytjum gríðarlega mikið inn af, sérstaklega svínakjötið. Þá tökum við óbeint þátt í því að bændur erlendis fá ekki heldur viðunandi verð fyrir vöru sína, eða það segir okkur það a.m.k. ef það hallar svo verulega undan fæti að þeir loka í hrönnum.

Sama á við með hrunið í mjólkurafurðunum í nágrannalöndum okkar. Það er einmitt eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur. Viljum við taka þátt í því gagnvart íslenska landbúnaðinum að niðurgreiða ekki til hans eða með einhverjum allt öðrum og minni hætti en kaupa innflutt niðurgreitt hráefni? Þá bjóðum við bændunum okkar upp á mjög óvægna samkeppni, mundi ég halda.

Það er líka mjög mikilvægt að það eru störf, miklu fleiri en bændanna, í húfi. Það eru mjög mörg afleidd störf og ekki einungis uppgripsstörf í afurðastöðvunum og annars staðar, það eru auðvitað mörg önnur afleidd störf sem fylgja því að búskapur er stundaður hér á þann hátt sem er gert. Það er líka afar mikilvægt að halda því til haga að þetta eru láglaunastörf, alla jafna eru bændur frekar lágt launaðir, og ég velti fyrir mér því sem kemur fram um jafnréttismatið í frumvarpinu. Þar er vitnað í áfangaskýrslur sem gerðar voru árið 2013 og svo stöðu kvenna í landbúnaði sem Byggðastofnun tók saman 2015. Fram kemur hversu lítið konur hafa fengið í sinni hlut, fyrst og fremst vegna þess að lögin hafa verið á þann hátt. Konur voru í sauðfjárræktinni með 15,2% og þáðu 12% heildargreiðslna í beingreiðslunum meðan karlarnir voru í rúmum 82%. Verið er að reyna að laga það í þessu frumvarpi en ég velti fyrir mér að frá 2008 hefur konum sem stunda landbúnaðarstörf fækkað um 100, það eru 7% á sex árum. Körlum hefur svo sem líka fækkað, um 12%, en ég velti fyrir mér hvort það hefur eitthvað með það að gera hvernig beingreiðslufyrirkomulaginu hefur verið háttað eða hvað þarna er undir. Það virðist ekki koma fram í þessu en alla vega er lagt til að því verði breytt hér og það er vel.

Það var rakið fyrr í dag varðandi kjörin að sum svæði verða verr fyrir barðinu á því gagnvart sauðfénu en önnur. Það er nokkuð sem ýtir undir það að við teljum að huga þurfi betur að þeim samningi, að hann geti ekki gengið upp svona, þannig að við lendum ekki í svipaðri stöðu og nágrannaþjóðirnar okkar, það er a.m.k. ekki eitthvað sem ég sé fyrir mér.

Beingreiðslurnar gætu verið í kringum 45% af launakjörum bænda. Við þurfum að skoða milliliðina miklu frekar en að kvarta yfir þessum stuðningi að mínu áliti.

Ég held að við getum verið sammála um, eða ég segi það alla vega, að öflugur og fjölbreyttur landbúnaður er ávísun á blómlega byggð í öllu landinu. Mér finnst það dýrmætur hluti samfélags okkar og skipta gríðarlegu máli í öllu efnahagslegu tilliti. Við eigum mjög verðmætt ræktunarland, við eigum nóg af vatni, við höfum líka þekkinguna til að nýta þau gæði. Matvælaframleiðsla hefur verið, og ég vona að hún verði það áfram, hrygglengjan í landbúnaði og atvinnustarfsemi í dreifbýlinu. Stórir hlutar láglendis okkar eru vel til þess fallnir að höndla með einhvers konar landbúnaðarframleiðslu og það er svo sannarlega þannig að þjóðin mun þarfnast matar um ókomna framtíð. Þá er gott að geta verið nokkuð sjálfbær um þá framleiðslu.

Flestar þjóðir heims hafa það að markmiði sínu að vera sem mest sjálfbjarga um matvælaframleiðslu fyrir þegna sína. Það er eitt af því sem er mikilvægt hvar sem það er framkvæmanlegt. Við vitum að sagan geymir mörg dæmi um að skortur á mat getur leitt til upplausnar og ástands sem við vitum ekkert hvert leiðir.

Það eru því að mínu mati alveg klárlega í því faldir þjóðhagslegir hagsmunir að reka öfluga matvælaframleiðslu í landinu og að hún byggi á innlendum aðföngum. Með því skilum við þjóðarbúinu mestu, bæði vegna nýtingar auðlindarinnar og þeirrar vinnu sem leggja þarf til við framleiðsluna. Stundum hefur verið talað um margfeldisáhrif í þessari frumframleiðslu í atvinnusköpun, að hún sé í kringum 2,5, sem þýðir þá að hvert ársverk í frumframleiðslu í landbúnaði skapar 2,5 störf við úrvinnslu, flutninga og önnur tengd störf.

Það er allt í lagi að rifja upp að aðgerðir stjórnvalda til stuðnings landbúnaðinum þegar gerðir voru búvörusamningar í apríl 2009 og svo endurnýjun búnaðarlagasamningsins og samningsins við sauðfjárbændur og mjólkurframleiðendur á haustdögunum 2012 undirstrika stefnu okkar vinstri grænna hvað varðar stuðning við þennan hefðbundna landbúnað. Ég er sannfærð um að þær aðgerðir vörðu stöðu landbúnaðarins í gegnum hrunárin og var hún tryggð með þeim samningum sem gerðir voru síðar.

Það eru líka margar hliðargreinar í þessu sem landbúnaðurinn nýtur sem betur fer góðs af, hvort sem það er loðdýrarækt eða kornrækt. Við höfum séð afurðir í formi drykkjaröls úr síðarnefndu afurðinni mjög víða. Efling ferðaþjónustunnar hefur skilað sér til ferðaþjónustubænda og er sem betur fer orðin mikil aukabúgrein og styrkir byggðina um landið og í sveitum landsins. Það er því margt sem hjálpar til en það er líka að mörgu leyti bagalegt að hafa þurfi mjög fjölþætta atvinnustarfsemi á einum og sama staðnum bara til að lifa af, þó að það geti líka verið jákvætt að mörgu öðru leyti.

Ég verð að taka undir það sem sagt er um landbúnaðarafurðir okkar og matvælaframleiðsluna og annað þegar kemur að fúkkalyfjanotkun. Auðvitað er það gríðarlega mikilvægt og við hljótum öll að vilja hreina afurð eða sem hreinasta afurð. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði á undan mér um hver næstu skrefin verða varðandi erfðabreytt efni í fóðri. Það er stóra verkefnið okkar að búa til sem hreinasta afurð og ég held að okkur hafi tekist það mjög vel, enda held ég að við finnum það þegar við erum erlendis.

Ég tek líka undir þetta með umhverfisvitundina og skortinn á henni. Ég vona, og tek undir með þeim sem hafa talað um umfjöllun í nefndinni, að reynt verði að nálgast þetta á annan hátt eða á einhvern hátt. Eins og hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagði áðan eru bændur upp til hópa til í þá vinnu sem fylgir því. Við eigum að nýta okkur það með því að gera betur í þessum samningi af því að öflugur og kraftmikill landbúnaðar er bæði brýnt samfélagsmál og brýnt umhverfismál.

Það er alveg ljóst í umræðunni sem hefur verið og á eftir að fara fram að framtíð þessa atvinnuvegar okkar, landbúnaðarins, þarf að byggja á víðtækri sátt um starfsskilyrði og það fjölþætta hlutverk sem hann hefur í samfélagi okkar, hvort heldur það snýst um að framleiða holl matvæli á viðráðanlegu verði, treysta búsetuna í dreifbýlinu, viðhalda umhverfisgæðunum, tryggja matvælaöryggi, styðja ferðaþjónustu og aðrar atvinnugreinar eða hvað það nú er. Allt þetta þarf að vera undir og um það þarf að ríkja sem víðtækust sátt. Í svona stóru máli þarf alltaf að mætast einhvers staðar og við þurfum örugglega að gera það í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, en umfram allt þurfum við að styðja við þetta þannig að það uppfylli það sem ég taldi upp.