145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:24]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu, en hún kemur inn á atriði sem ég held að engin ástæða sé til að tefja við að ræða frekar, og það er hluti af þeirri gagnrýni sem er beint sérstaklega að þeim hluta þessa þingmáls sem eru sauðfjársamningarnir.

Nú er það svo að stóru landsbyggðarkjördæmin eiga öll þrjú viðkvæm svæði í þessu tilfelli. Mig langar svolítið að biðja þingmanninn um að fjalla aðeins um umræðuna sem ég veit að komist hefur á flot í Norður-Þingeyjarsýslu, á þeim svæðum, um þennan hluta samningsins sem fjallar um tilflutning á stuðningi í gegnum ærgildi og þá veikingu sem það getur mögulega haft í för með sér. Ef hv. þingmaður mundi vilja ramma svolítið inn þá umræðu og hvaða hugmyndir hún hefur til þess að mæta því.

Ég vil líka minna á að það eru alltaf afleiðingar af öllum ákvörðunum. Ég tek fram að ég er sammála því að við þurfum að skoða þennan hluta sauðfjársamningsins mjög vel. Hitt er að þessi umræða er afleiðing af því að við erum að reyna að brjótast út úr þeirri umræðu sem er oft í austur og vestur; það megi nú engu breyta, en þarna ætlum við að breyta, og þá hefur það þessar afleiðingar.

Ég bið þingmanninn um að fjalla aðeins um það og hvaða hugmyndir hún hafi þá helst tekið þátt í að ræða eða vilji benda á til að takast á við þennan hluta gagnrýninnar.