145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég er svo sem enginn sérfræðingur í landbúnaðarmálum, en þegar við komum niður á þessi smáatriði sem eru kannski stóru atriðin í samningunum, þá hafa þeir sauðfjárbændur talað um að sú rýrnun sem verður á stuðningnum á tímabilinu sé í rauninni of mikil, þegar búin þurfa að vera það stór að geta framfleytt fjölskyldu. Við erum að tala kannski um bú sem eru með um 600 vetrarfóðraðar kindur til að fjölskylda geti framfleytt sér, eða þaðan af stærra. Regluna sem á að afnema, þ.e. um 0,7 kindur, mér skilst það alla vega en þingmaðurinn kann þetta betur en ég og leiðréttir mig þá bara, það var nóg sem sagt að setja á 70% af bústofninum til þess að nýta greiðslumarkið og þá gátu bændur haldið þessum beingreiðslum fullum en geta það ekki ef þessi samningur nær fram að ganga með þeim hætti sem hér er lagt fram. Þetta er kannski það sem maður hefur aðallega heyrt í þeim, að þeir telja að rýrnunin á tímabilinu sé bara allt of mikil hvað varðar þennan stuðning. Ég trúi því að hægt sé að gera betur. Við sjáum að kúabændur komu betur út úr samningaviðræðum við ríkið, náðu fram breytingum sem sauðfjárbændur virðast ekki hafa náð fram.