145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég ætlaði ekkert endilega að taka þátt í þessari umræðu þar sem ég er ekki mikill sérfræðingur um landbúnaðarmál, þrátt fyrir að vera kominn af bændum í beinan karllegg ég veit ekki hve langt aftur í aldir, en mig langar samt að koma hingað upp. Hv. þm. Haraldur Benediktsson talaði til dæmis af þvílíkri þekkingu að maður kiknaði í hnjáliðunum, en það er líka það sem er hið góða við Alþingi, að hér er fólk sem hefur þekkingu á ýmsum sviðum. Það á við um þennan málaflokk eins og alla aðra.

Ég hef aðgang að fólki sem hefur þekkingu á hlutunum og hefur aðeins reynt að setja mig inn í þetta vegna þess að mér er mjög annt um bændur og mér er mjög annt um íslenskan landbúnað. Mér er líka annt um íslenska neytendur og hvað þeir þurfa að borga fyrir það. Ein manneskja sem ég þekki vel, sem heitir Þórunn Pétursdóttir og er landgræðsluvistfræðingur, hvorki meira né minna, skrifaði grein í Kjarnann fyrir ekki löngu sem heitir „Kæri ráðherra landbúnaðarmála“. Hún er hérna, ég tek það fram að þetta er ekki mynd af landbúnaðarráðherra heldur af skjólstæðingi hans austan úr sveitum. Mig langar að lesa þessa grein. Ég veit ekki hvort hæstv. landbúnaðarráðherra hefur lesið hana en mig langar til að lesa hana því að hér talar manneskja af fagmennsku og þekkingu um sauðfjárrækt og landgræðslu. Þetta hefst svona, með leyfi forseta:

„Um leið og ég óska þér til hamingju með nýja stólinn þá langar mig að deila með þér, og öðrum áhugasömum, vangaveltum um hvernig stjórnvöld geta skapað sauðfjárbændum sómasamlegt starfsumhverfi til framtíðar.

Forveri þinn í ráðuneytinu skrifaði nýlega undir samning fyrir hönd ríkisins við sauðfjárbændur. Samkvæmt honum munum við næstu 10 árin leggja í allt um 50 milljarða styrk til greinarinnar. Samningurinn felur ekki í sér neina nýsköpun heldur rígheldur greininni í viðjum vanans. Eins og góður maður sagði við mig um daginn þegar ég innti hann eftir því hvort ekki hefði verið ástæða til að breyta styrkjafyrirkomulaginu og opna það fyrir nýjungum – þetta er sauðfjársamningurinn!

Við vitum bæði að árleg neysla á kindakjöti er svipur hjá sjón frá því sem var þegar þú og ég vorum lítil börn. Það er einnig margt sem bendir til að eftir 10 ár hafi innanlandsneysla dregist enn meira saman, þrátt fyrir allt markaðsstarf. Það er nefnilega þannig að ungt fólk er í vaxandi mæli hætt að borða kjöt; af siðferðislegum ástæðum. Þeirra börn munu líklega ekki læra að borða kjöt og neytendamarkaðurinn mun þannig halda áfram að skreppa saman.

Í dag framleiða bændur þriðjungi meira kindakjöt en þjóðin torgar. Okkur er aftur farið að dreyma um öflugan útflutning en þrátt fyrir áratugaleit að mörkuðum erlendis hefur okkur ekki enn tekist að fá gott verð fyrir kjötið. Í skýrslu sem KOM ráðgjöf vann fyrir Landssamtök sauðfjárbænda á dögunum kemur reyndar fram að markaðstækifærin séu gríðarleg – fyrir lífræna framleiðslu! Þá vandast málið aðeins því samkvæmt minni bestu vitneskju eru aðeins níu sauðfjárbú í landinu sem framleiða lífrænt vottað lambakjöt. Ef við gefum okkur að þetta séu allt meðalbú að stærð þá er hlutfall lífræns vottaðs lambakjöts aðeins rétt innan við 1% af árlegri heildarframleiðslu greinarinnar. Er ekki óvarlegt að byggja nýja markaðssókn erlendis á því?

Annar þáttur sem snýr að sauðfjársamningnum er landnýting. Samkvæmt samningnum á að leggja aukna áherslu á sjálfbæra landnýtingu en ekkert gefið upp um hvernig eigi að ná því markmiði. Nú, þegar umhverfisráðherra er nýlent eftir að hafa skroppið til NY til að undirrita loftslagssamninginn fyrir okkar hönd, er ekki úr vegi að minna á að Ísland er vistfræðilega verst farna land Evrópu. Landeyðing frá landnámi er geigvænleg. Í grunninn af völdum ósjálfbærrar landnýtingar; drifin áfram af búfjárbeit og skógarhöggi í gegnum aldirnar við óblítt veðurfar, eldgos og aðrar náttúruhamfarir. Við erum engu að síður enn að kýta um hvort beita skuli þessa auðn eða hina á hálendinu.

Í sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar er sannarlega lögð áhersla á landgræðslu sem aðgerð til að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. Því miður er það ekki sett í samhengi við landnýtinguna. Uppgræðsla rofins lands er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið til að bæta ástand lands. Ef nýtingu er ekki breytt til samræmis við það er aðgerðin í besta falli máttlaus. Sauðfjárrækt eins og hún er stunduð hérlendis byggir að miklu leyti á úthagabeit og það er verulega umhugsunarvert að nýi sauðfjársamningurinn skuli ekki grundvallast á auðlindastýringu – af ítarlegri landnýtingaráætlun fyrir hvern einasta afrétt/ úthaga landsins þar sem nýting tekur raunverulega mið af ástandi gróðurs og jarðvegs. Landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt uppfyllir því miður ekki þessar grunnkröfur og fátt í dag sem bendir til að hann muni þróast í raunverulegt stjórntæki sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Eins er mjög umhugsunarvert af hverju innihald samningsins er ekki beintengt við áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Tækifærin til að breyta styrkjakerfi greinarinnar í umhverfistengdar greiðslur eru gríðarleg. Samstarfsfletirnir við fyrirtæki landsins sem vilja sýna samfélagslega ábyrgð í verki eru sömuleiðis ótrúlega áhugaverðir. En – það er enginn vettvangur til staðar þar sem hægt er að skoða þessi mál í samhengi og máta inn í framtíðarsýn íslensks dreifbýlis.

Það er, kæri landbúnaðarráðherra, Akkilesarhæll sauðfjárræktarinnar. Skortur á heildarsýn og samþættum umhverfis- og landbúnaðarstefnum þeirra ráðuneyta og stofnana sem tengjast greininni heldur kirfilega aftur af nýsköpun. Af hverju á umhverfisráðuneytið til að mynda ekki beina aðkomu að gerð sauðfjársamningsins? Af hverju er ekki til þverfaglegur ráðgjafavettvangur á vegum ráðuneyta sem fara með umhverfis- og landbúnaðarmál? Eiga hagsmunaaðilar að geta einir samið um nýtingu auðlindarinnar eins og þeim sýnist? Við megum ekki gleyma að stærsti hluti hálendisins er í eigu íslenska ríkisins og ég hefði haldið að umhverfisráðuneytið væri besti talsmaður þess, eða?

Síðustu árin hef ég, ásamt samstarfsfélögum mínum, lagst í talsverða rannsóknarvinnu og rýnt í vistfræðilega og samfélagslega kerfið sem úthagabeit og endurheimt raskaðs úthaga tilheyrir. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að skoða hvort landbúnaðar- og umhverfisstefnur stjórnvalda sem snúa að fyrrnefndum þáttum séu í raun að skila þeim árangri sem þeim var/er ætlað. Það eru nú nokkur áhöld um það. Í grein sem við birtum í tímaritinu Ecology and Society árið 2013 kemur til að mynda mjög skýrt fram að það eru ekki bændurnir sjálfir sem hópur sem halda aftur af framþróun heldur mun frekar fílabeinsturnar stjórnsýslunnar sem fer með málefni landbúnaðar- og umhverfismála, undirliggjandi valdabarátta á milli stofnana og máttlausar og óljósar stefnur. Fleiri greinar bíða birtingar í fagtímaritum, en ég er boðin og búin til að upplýsa þig um innihald þeirra hvenær sem er.

Kæri landbúnaðarráðherra. Þrátt fyrir allt þá er ég sannfærð um að sauðfjárbúskapur eigi framtíðina fyrir sér – sem framleiðandi hágæðavöru sem seld er dýrum dómum. Eins og stefnt er að samkvæmt nýjum samningi: Gæði umfram magn! En þá þarf að hugsa um alla þætti frá upphafi, út frá styrkjum, neytendum, auðlindastýringu og dreifbýlisþróun – með loftslagsmálin sem rauðan tengiþráð.

Þú ávannst þér virðingu með því að standa fastur fyrir í málefnum tengdum sjávarútveginum, þrátt fyrir þunga pressu af hálfu þeirra sterku hagsmunahópa sem þú áttir við að etja. Ég vona innilega að þú takir á málefnum landsins á sama hátt í þínu nýja embætti en látir ekki hagsmunahópa leiða þá vinnu.“

Svo mörg voru þau orð í þessari grein. Mig langar líka til að segja að það hefur komið fram, t.d. í máli hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur, að við getum ekki stutt þessa búvörusamninga óbreytta. Það sem mér þykir mjög ámælisvert er það hversu lítið samráð hefur verið við fulltrúa almennings í landinu, neytendur og skattgreiðendur, sem þurfa að bera kostnaðinn af samningnum og hafa mikla hagsmuni af því að geta fengið mat á sem hagstæðustum kjörum. Þeir hagsmunir eru þeim mun meiri eftir því sem matur er stærri hluti af heildarútgjöldum fjölskyldu. Það þýðir að hagsmunir þeirra sem hafa úr litlu að spila og barnmargra fjölskyldna eru mestir. Þetta er því gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir ungt barnafólk og lífskjör þess og hefur því bein áhrif á það hversu eftirsóknarvert er fyrir það að búa í landinu, einn af mörgum hlutum.

Hér skiptir líka miklu máli hvaða stefnu stjórnvöld ætla að hafa hvað varðar innflutningstolla á matvæli, þar með talið landbúnaðarvörur. Það hefur komið fram í umræðu hér í dag að ræða eigi þau mál í næstu viku. Þetta eru atriði sem verður að hafa mjög mikið í huga í þessu dæmi. Þessir samningar eru því alls ekkert einkamál milli hagsmunasamtaka bænda og stjórnvalda heldur varða þeir hagsmuni allrar þjóðarinnar í nútíð og framtíð. Hér er ákveðið hvernig farið er með skattfé almennings sem verður þá ekki nýtt til annarra knýjandi samfélagslegra verkefna. Það er skattfé alls almennings sem þarna er bundið með tilteknum hætti til langs tíma. Öll meðferð þeirra verður því að taka mið af því. Mikið samráð við neytendur, þ.e. almenning í landinu, og mikið gagnsæi í allri meðferð við töku ákvarðana og mótun stefnu er því nauðsynleg og mikið réttlætismál. Þá verður að benda á og gagnrýna að samningunum er ætlað að gilda í meira en tvö kjörtímabil fram í tímann. Að sjálfsögðu er með öllu óvíst að þeir stjórnmálaflokkar sem nú mynda stjórn og standa að samningunum fái umboð þjóðarinnar til að fara með stjórn landsins á þeim tíma. Lítið samráð við samningsgerðina er því ekki bara virðingarleysi við almenning heldur lýðræðið í landinu.

Mér finnst þetta vera skólabókardæmi um vondar aðferðir við meðferð pólitísks valds sem er til þess fallið að ala á sundrungu og flokkadráttum meðal fólksins í landinu eftir því við hvað það starfar og hvar það býr. Og það hefur komið fram í umræðum í dag að oft er verið að etja landsbyggðinni saman og kenna okkur sem viljum kannski sjá einhverjar breytingar um það að vera óvinir bænda, sem er svo langt í frá. Bændur eru ein af mikilvægustu stéttum landsins og það vitum við.

Þannig meðferð valds er ábyrgðarlaus og í andstöðu við góð vinnubrögð í stjórnmálum og stjórnsýslu og leiðir til ágreinings og minni skilvirkni sem aftur kostar þjóðina fullt af peningum. Löngu tímabært er að núverandi ríkisstjórn skilji þetta og láti af þeirri leiðu, óábyrgu og kostnaðarsömu iðju sinni að ala á sundrungu sem hún hefur því miður gert allt of mikið af í stað þess að reyna að skapa sátt um leiðir og stefnu sem er eitt af hennar helstu stefnumálum og kemur fram í stefnuyfirlýsingu.

En það er ekki allt slæmt í þessu og það skásta í samningunum að mínu mati, og þeirra sem hafa verið að aðstoða mig við þetta, að leiða sé leitað til að greiða fyrir nýsköpun og að nýrra leiða við nýtingu lands. Það er þó alls ekki nóg af því og eftir því sem ágreiningur er meiri um samningana og verr staðið að því að ná sem almennastri sátt um þá er augljóst að óvissa verður um framhald þeirra og þar með hversu óábyrgt og vitlegt er að gera þá til langs tíma.

Eins og ég hef sagt að framan er það í bullandi ólagi hjá ríkisstjórninni og stjórnvöldum í þessu máli. Greiða verður fyrir nýsköpun og nýjum aðferðum við nýtingu lands og búskap. Landbúnaðarkerfið og stuðningskerfið verður að gera það, auðvelda þeim sem vilja nýta land með öðrum hætti en með hefðbundnum búskap sem er háður opinberum stuðningi. Kerfið og stofnanir þess verður að knýja til þess að hugsa og vinna að þeim markmiðum. Mig langar að taka sem dæmi úr mínu kjördæmi bændur sem hafa gert eitthvað annað en bara verið að rækta. Ég get nefnt Aratungu og Reykholt þar sem Friðheimar hafa byggt stórkostlega ferðaþjónustu í kringum tómata- og grænmetisrækt. Síðan er Ólafur á Þorvaldseyri annar bóndi sem hefur rifið sig út úr því að vera bara bóndi og nýtt landið og þekkingu sína og hæfni í annað.

Fé sem er varið til að styðja við hefðbundinn búskap má að sjálfsögðu nýta til að styrkja fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu í byggðum landsins. Fjölbreytni er lykilatriði og fjölbreytt atvinnutækifæri eru einnig forsenda þess að ungt fólk vilji búa í dreifbýli. Menn verða að horfast í augu við það. Hefðbundinn búskapur sem bundinn er á klafa ríkisstyrkja mun ekki laða að sér ungt fólk. Það hefur líka komið fram í dag að það vantar nýliðun í þessa grein.

Mig langar síða að nefna, því að landbúnaðarráðherra er líka sjávarútvegsráðherra, að að sjálfsögðu á að nýta arðinn af sjávarútvegsauðlindinni sem þjóðin á saman í miklu meira mæli til að byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri úti á landi og bæta margvíslega samfélagslega þjónustu þar. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert í því, því miður, en hún hefur staðið vörð um hagsmuni þeirra útvöldu sem græða mjög mikið á einkarétti sínum til að nýta auðlind þjóðarinnar án þess þó að þurfa að skila fólkinu sem á hana, og svo sannarlega ekki síst fólki sem býr úti á landi, eðlilegum og sanngjörnum hluta af þeim arði sem eign þess skilar.

Herra forseti. Markmiðið hlýtur að vera að landbúnaður verði eins og annar atvinnurekstur, sjálfbær og geti þrifist sem mest án opinberra styrkja og tollverndar sem ekki er í samræmi við hagsmuni alls almennings í landinu. Stjórnvöld, stofnanir í landbúnaði, bændaforustan og allt landbúnaðarkerfið verður að taka mið af þessu.

Svo mörg voru þau orð en ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði áðan, að frábær árangur hefur náðst í því að vera ekki með sýklalyf og annað, sem er einstakt. Við eigum líka að standa vörð um það en við verðum að vinna þetta í sátt og samlyndi. Það er lykilatriði. Við samþykktum hér í dag í atkvæðagreiðslu frumvarp um almennar íbúðir sem tók langan tíma í undirbúningi, tvö og hálft ár og þrjá, fjóra mánuði í umræðu í nefnd sem skilaði frumvarpi í fullri sátt. Það er það sem við þurfum að gera líka með þetta og ég vona að hv. atvinnuveganefnd — hér situr fullt af fulltrúum úr henni — vinni þetta mál mjög vel og kalli til sín fólk í samráð og samvinnu. Gerum þetta þannig að við náum sem víðtækastri sátt í þessu máli. Þetta hefur verið eilíft þrætuepli allt of lengi og landbúnaðurinn á Íslandi er allt of mikilvægur alveg eins og sjávarútvegurinn til að við séum að eyða orku okkar í að rífast um þetta endalaust. Það hefur gert það að verkum að þessi þjóð er sundruð og það er það sem hún má ekki við.