145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að grípa ofan í hana efnislega þar sem hann fjallar um styrkjakerfi og aðferð til að styðja landbúnaðinn og alla þessa hluti og segja: Það er að sjálfsögðu ekki sjálfstætt markmið að landbúnaður þurfi opinberan stuðning með þessum hætti, hvorki með þessum hætti, með beinum stuðningi, né með tollvernd. Hins vegar er það staðreynd sem við horfum ekki fram hjá að ef við ætlum að varðveita þennan tiltölulega frábreytta landbúnað sem við höfum í landinu verðum við að beita einhverjum slíkum aðferðum.

Ég vil minna á að stuðningur við íslenskan landbúnað hefur dregist verulega saman á undanförnum árum. Á tiltölulega stuttum tíma hafa útgjöld aukist. Ef við værum enn þá með sama hlutfall af landsframleiðslu værum við að tala um 26–30 milljarða í beinan stuðning við landbúnaðinn. Ég held að við ættum líka einhvern tímann að ræða um það þegar við drógum þetta fjármagn út úr atvinnugreininni, út úr sveitunum, og spyrja: Hvað varð um þá peninga? Landbúnaður er öðrum þræði byggðamál og hvernig við stöndum við byggðina.

Hv. þingmaður nefnir hérna stuðningsform og stuðningsgreiðslur. Í aðdraganda þessarar umræðu kynnti ég mér einar fjórar skýrslur til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um stuðningsgreiðslur. Fyrir um 10–12 árum síðan var eðli stuðningskerfis landbúnaðarins þar breytt og teknar upp landgreiðslur, eða stuðningsgreiðslur úti um land. Allar þessar skýrslur segja okkur í raun og veru tvær staðreyndir: Í fyrsta lagi er það hagnaður milliliða. Hlutdeild þeirra í búvöruverðinu hefur margfaldast á þessum tíma. Hitt er að sá stuðningur hefur orðið til þess að land þar sem eign hefur safnast á fárra hendur og það fjármagn sem áður átti að tryggja framleiðslu matvæla er farið frá greininni og í hendur einhverra annarra.

Því spyr ég hv. þingmann: Hvaða hugmyndir hefur hann að breyttu fyrirkomulagi? Það er svo oft talað um staðnað landbúnaðarkerfi og að það þurfi að breyta því og stokka upp, en ég heyri miklu færri tillögur.