145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:13]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins vegna þessarar kerfisbreytingar, ef ég skil hv. þingmann rétt, þá erum við með því kerfi að niðurgreiða vörur til útflutnings, það tel ég alveg útilokað að gera.

Hv. þingmaður dregur í efa að tollalækkanir skili sér til almennings. Ég er honum algjörlega ósammála. Það kann að vera, og mér finnst það auðvitað bagalegt ef það hefur sýnt sig að vörur hafi ekki lækkað um það sem nemur afnámi tolla um síðustu áramót. Á því kunna að vera einhverjar skýringar að einhverju leyti, launahækkanir og annað. Tollalækkunin um áramótin kom þó í öllu falli í veg fyrir mögulega vöruhækkun, eða minni eða meiri verðhækkun en ella varð.

Aðalatriðið er að með afnámi tolla — við höldum okkur bara við fötin og skóna — er vöruverðið þó gagnsærra gagnvart neytandanum. Menn vita þá hvar álagningin liggur. Það er ekkert hægt að fela sig á bak við það að hér séu vörugjöld og tollar sem hinn almenni neytandi, hin hagsýna húsmóðir sem fer út í búð, er ekki með á hreinu hversu há hafi verið enda hafa þeir verið allt frá 1% og upp í 25–30% á hinar ólíklegustu vörur.

Samningsstaðan, eigum við að nota tolla í samningum við önnur lönd? Auðvitað eigum við að reyna að gera það. En við höfum ekki einu sinni verið að gera það. Gerum það þá ef áhugi er á því. Gerum það þá. Ég hef engar áhyggjur af því ef Ísland afnemur einhliða tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum að menn ætli að þjösnast við og halda áfram að leggja tolla á Íslendinga eða íslenskar vörur erlendis. Að einhverju leyti þurfa menn auðvitað líka að átta sig á samningsstöðunni. Hver er samningsstaða okkar? Er einhver að fara að semja við okkur um afnám tolla í einhverjum stórum ríkjum? Ef ekki, (Forseti hringir.) eigum við að láta íslenskan almenning bera það? Eigum við að refsa íslenskum almenningi fyrir það (Forseti hringir.) ef önnur ríki vilja ekki semja við okkur um afnám tolla á íslenskum vörum?