145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek auðvitað undir með hv. þingmanni að Ísland heldur til haga öllum sínum rétti þegar kemur að skattlagningu og þar fram eftir götunum, mikil ósköp, auðvitað er það. En ætti það ekki einmitt að vera hv. þingmanni til umhugsunar að ríki sammælist um það undir hatti GATT eða WTO að viðhalda tollakerfinu? Er ekki eitthvað bogið við það nákvæmlega? Auðvitað höfum við allan rétt til þess að gera það.

Það sem ég er að segja er að lítil íslensk eyþjóð í Norður-Atlantshafi, sem á allt undir því að versla við þjóðir vestan hafs og austan og um allan heim, á ekki að láta þegna sína blæða fyrir það að einhver önnur ríki vilji ekki gera gagnkvæma samninga við Ísland, ef það er þannig. Ég bendi hins vegar á að Ísland hefur eitt gert tvíhliða samninga við ýmis ríki. Fríverslunarsamningur eins og EES-samningurinn er stærsta dæmið um stóran samning sem er marghliða. Íslendingar eiga því að mínu mati að hugleiða það vandlega að ná samningum um þær vörur sem við teljum að séu skattlagðar úr hófi fram í öðrum ríkjum. Við eigum að óska eftir viðræðum um að tollar af þeim verði afnumdir í þeim löndum. En síðan að athuguðu máli, gangi það ekki, þá gengur það ekki upp að mínu mati að þjóðinni sé haldið í spennitreyju og innflutningur á lífsnauðsynlegum vörum sé í mörgum tilvikum nánast tollaður út af markaði.