145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Eins og ég hef skilið þetta er ég ekki að tala um að taka upp framleiðslustýringu í sauðfjárrækt heldur það að draga ekki línu á milli markaðssetningar í sauðfjárbúskap varðandi lambakjötsframleiðslu. Það markaðsátak sem nú er í gangi er gott og blessað og er allt í þeim farvegi að menn vilja reyna að markaðssetja íslenskar landbúnaðarafurðir erlendis, þó að það hafi kannski ekki borið mikinn árangur hingað til. En ekki vera að blanda markaðsátaki í kindakjöti við þá búvörusamninga sem hér liggja fyrir; mér finnst ótækt að blanda því saman og tengja það með þessum hætti. Ef vel gengur að markaðssetja afurðina erlendis og gott verð fæst fyrir hana er það hið besta mál. En við eigum ekki að tengja það með þessum þætti.

Stuðningurinn er trappaður niður á næstu tíu árum sem getur þýtt allt frá 1 milljón upp í 4 milljónir fyrir hvert sauðfjárbú á þessum veikustu svæðum eins og ég veit að hv. þingmaður veit þar sem við fengum bæði kynningu frá formönnum félaga sauðfjárbænda á Ströndum og á Vestfjörðum. Við vitum alveg við hvað þessir forsvarsmenn sauðfjárbænda eru að glíma og hvaða áhyggjur þeir hafa, að þetta þýði að menn treysti sér ekki í áframhaldandi rekstur sinna búa miðað við það að forsendur fyrir rekstrinum, með þessum samningi, eins og hann lítur út í dag, eru brostnar.