145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram. Hér er vitanlega um býsna stórt mál að ræða, sem liggur fyrir. Við erum að tala um mjög miklar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins, þeirra greina sem hér er fjallað um. Við erum með þessum samningum að reyna að gera kerfið þannig úr garði að það færi greinina fram á við og um leið að tryggja að byggðir landsins haldist sem blómlegastar. Auðvitað sýnist sitt hverjum þegar rætt er um einstaka þætti, útfærslur og sitthvað.

Ég vil byrja á að taka fram, eins og sjá má í samningunum og hefur komið fram, að það á eftir að útfæra ákveðna hluti. Það á til dæmis eftir að útfæra allan þann byggðastuðning sem innbyggður er í samninginn. Byggðastofnun mun skila tillögum sínum í byrjun júnímánaðar, kannski 10. eða 14. júní. Við leggjum þá útfærslu vitanlega í hendur sérfræðinga þar, að skilgreina hvar þessar veiku byggðir eru og slíkt.

Talað hefur verið um útflutningsbætur og við fórum aðeins inn á það hér fyrr í dag. Ég lít ekki svo á að verið sé að taka neitt slíkt upp. Vitanlega er kerfið þannig að bændur fá ákveðna styrki til að framleiða, síðan eru það afurðastöðvarnar sem afsetja vöruna, hvað fer í innflutning og hvað fer í útflutning; það ræðst svolítið af markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Á síðasta ári var flutt út minna af lamba- og kindakjöti en árið 2014, væntanlega vegna þess að markaðsaðstæður voru aðrar eða verð. Inni í þeim tölum, við erum að tala um 3.000 tonn og 4.700 tonn, er ekki verið að tala um hliðarafurðirnar svokölluðu sem eru líka fluttar út. Það kom fram í umræðu fyrr í dag að menn ættu bara að minnka fjárstofnana sem því nemur, útflutningnum, en ég er alls ekki sammála því og tel það algjörlega galið.

Síðan var talað um verðlagsuppbæturnar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á þær og rétt að vekja athygli á því. En eftir því sem ég best veit erum við að tala um sömu aðferð og sömu verðlagsuppbætur og gerðar voru 2009 og 2013, held ég sé, það er engin breyting á því í þessum samningum, engin breyting. Menn komu inn á kornrækt. Gert er ráð fyrir því hér að styrkir séu auknir og aukin áhersla lögð á kornrækt og útirækt svo að eitthvað sé nefnt, eins og kemur þarna fram.

Talað hefur verið um samráðið, flestu sem við gerum má velta upp. Erum við með nógu mikið samráð og hvenær eigum við að hafa samráð af þessu tagi og hvenær ekki? Í grunninn erum við að semja um kaup og kjör. Við erum að semja við bændur um hvað þeir fá borgað og hvernig þeir lifa af búum sínum. Það er það sem við erum að semja um. Til hliðar við þetta er að sjálfsögðu sú staðreynd að við erum líka að semja um afurðir sem koma neytendum til góða. Ég vil meina að við séum að semja um að bændur taki að sér að framleiða ákveðnar vörur fyrir ákveðið verð sem er þá þeirra laun. Það eru jú milliliðir þarna á leiðinni. Má líkja þessu við eitthvað annað sem við erum að gera í dag? Ég þori ekki að taka nein dæmi, það gæti komið manni í koll. En það má alveg velta því fyrir sér hverjir eigi að koma að launasamningum ríkisins, þar sem jafnvel er samið um aðbúnað, húsbyggingar mögulega o.s.frv. Í grunninn erum við að semja um hvað bændur fá fyrir framleiðslu sína. Í staðinn fáum við hollar og góðar vörur, sem kannski hæfa umhverfi okkar, án þess að ég ætli að fara mjög djúpt í það.

Hér er líka talað um hina svokölluðu 0,7%-reglu og menn hafa nefnt að afkoman sé að minnka um 19 eða 20% o.s.frv. Ég vil nú bíða og sjá hvernig skilgreiningin verður á býlisstuðningnum og öðru áður en við förum mjög djúpt í þessa pælingu. Það hafa verið lagðir fram ákveðnir útreikningar, en ég man ekki hvaða forsendur voru þar.

Hér var líka talað um stuðning í svínarækt á fjölskyldubúunum. Ég deili áhyggjum — ég held að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem nefndi þetta sérstaklega — þingmannsins af því að það er mikilvægt að stuðningurinn leiti þá í þessi fjölskyldubú, ekki í stóru vel reknu búin sem við höfum svo sem séð í fjölmiðlum að eigi jafnvel fjármuni annars staðar en á Íslandi. Ég legg mikla áherslu á að við reynum að beina styrkjunum á þá staði.

Ef við förum svo að tala um frelsi og offramleiðslu: Frá 2008, held ég, hafa sauðfjárbændur framleitt frjálst, bara eins og þeir vilja. Það hefur ekki verið nein takmörkun á því hvað þeir geta framleitt. Þar af leiðandi held ég að þessi samningur auki í sjálfu sér ekkert hættuna á offramleiðslu þar. Í dag er offramleiðsla á mjólk. Það er hins vegar ekkert í núgildandi samningum til að bregðast við því eða taka á því með einhverjum hætti. Það er hins vegar gert ráð fyrir því í þessum samningum — ákveðin aðferð er teiknuð inn í samninginn, minnir mig, í fjórum liðum, ég er ekki með það hjá mér — að sé hætta á offramleiðslu eða eitthvað slíkt sé hægt að bregðast við með ákveðinni aðferð. Það er að minnsta kosti til bóta.

Er aukin hætta með þessum samningi á því að offramleiðslan verði meiri en hún er í dag? Ég held að það sé of snemmt að svara því. Ég held að það sé ekkert svo gott að svara því. Það er alla vega hægt að takmarka áhrifin í samningnum. Jú, nú man ég þetta, það er kallað framleiðslujafnvægi sem gert er ráð fyrir í samningnum.

Talað hefur verið um umhverfismálin. Það má svo sem velta því fyrir sér hvort við hefðum átt að leggja meiri áherslu á þau. Í samningnum er þó talað um gróðurauðlindir landsins, að meta þær og reyna að finna leiðir til að þær vaxi þó samhliða aukinni framleiðslu ef það verður. Svo er gæðastýringin að sjálfsögðu sérstaklega nefnd og slíkt. Síðan nefndi hv. þm. Haraldur Benediktsson, held ég að hafi verið, yfirlýsingu eða samkomulag sem undirritað var um daginn við bændur varðandi loftslagsmálin, að bregðast við þeim, loftslagsvænni landbúnað og slíkt.

Hér hefur líka verið talað um tollana og tollasamninginn sjálfan ræðum við að sjálfsögðu síðar. En hér var nefnd, minnir mig, 39. gr.; þar er verið að tala um mjólkurduft, osta og fleira, þar sem fyrst og fremst er verið að uppfæra verðlag frá 1995. Í raun er ekki verið að auka eitthvað, það er verið að uppfæra það. Síðan er að sjálfsögðu í tollasamningnum sjálfum, svo að ég komi aðeins inn á það, samið um gagnkvæma kvóta inn á Evrópumarkað og í staðinn eru kvótar auknir til okkar, en þeir eru í flestum ef ekki öllum tilfellum í raun bara það umhverfi sem við búum við í dag. Það er að sjálfsögðu ekki verið að auka mikið ef nokkuð við innflutninginn sem er í dag. Þetta er að sjálfsögðu, varðandi 39. gr., það sem er umfram tollkvóta.

Varðandi útflutninginn; aftur aðeins að því að við eigum bara að skera niður bústofninn. Mér finnst það alls ekki koma til greina, því að vitanlega eru afleidd störf og ýmislegt utan á þessari framleiðslu, hvort sem það er nú flutt út eða selt hér innan lands.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hér ágætrar spurningar varðandi innlausnarákvæðin í mjólk og sauðfé, hver munurinn væri þar á. Ég ætla nú bara að viðurkenna að ég kann ekki svarið við þessari spurningu. Hún er hins vegar mikilvæg og það er ágætt að draga hana þá fram í meðförum þingsins. Ef málefnalegar ástæður eru fyrir því að þetta eigi að vera svona eða eigi ekki að vera svona þá er mikilvægt að það komi einfaldlega fram. Í fullri hreinskilni get ég ekki svarað þessari spurningu öðruvísi.

Aftur varðandi frelsið og framleiðsluna. Ég vil að endingu segja: Auðvitað er það ekki þannig að framsóknarmenn hafi setið einhvers staðar einir og samið um þennan samning eins og mátti kannski skilja hér. Það voru að sjálfsögðu margir fleiri aðilar sem komu að þessu. Ég ætla svo sem ekkert að segja hvernig samningurinn hefði litið út ef við hefðum ráðið þessu, það getur vel verið að hann hefði verið öðruvísi. En ég vona að framtíðin beri það í skauti sér að þeir landbúnaðarráðherrar sem bera þennan samning fram muni, þegar litið verður um öxl eftir tíu ár, fá þokkaleg meðmæli varðandi samninginn.

Íslenskur landbúnaður er, held ég, þannig staddur í dag að það eru mörg sóknarfæri. Það eru frábær sóknarfæri, mundi ég segja, í íslenskum landbúnaði, bæði í vöruþróun og í öllum þessum tengdu hliðargreinum. Ein hugmynd sem er á teikniborðinu er til dæmis að nýta skjaldkirtil til að framleiða ákveðið fæðubótarefni sem hjálpar þeim sem eiga við skjaldkirtilsvandamál að ræða. Það eru ótrúleg framþróun og nýsköpun í þessari grein líkt og í sjávarútveginum. Hún á kannski eftir að springa út eins og sjávarútvegurinn gerði.

Ég held að þessir samningar séu þokkalega framsæknir á sama tíma og við viljum verja landbúnaðinn, verja þá frábæru framleiðslu sem hér er, þar sem lyfjanotkun er minni en við þekkjum annars staðar frá. Ég er því algjörlega ósammála þeim sem segja að í einu vetfangi eigi að afnema tolla varðandi landbúnað, það finnst mér ekki koma til greina. Einhvers staðar er kannski skynsamlegt að afnema tolla einhliða, en það hefur margar hliðar. Við verðum að hafa eitthvað til að díla um eða semja um, vildi ég sagt hafa.

Komið var inn á landbúnað í nágrannaríkjum okkar. Það er vitanlega hárrétt, sem hv. þm. Haraldur Benediktsson nefndi hér, að landbúnaður væri í mikilli vörn sérstaklega í Evrópu. Það er mikil óánægja og ég þekki það svo sem frá Danmörku að mikil vandamál eru þar. Menn berjast þar í bökkum varðandi framtíð sína. Við þurfum að sjálfsögðu að passa okkur á því að fara ekki þá leið.

Ég vona að frumvarpið fái góða umfjöllun, sem ég veit að það gerir, í atvinnuveganefnd. Síðan er það að sjálfsögðu spurning hvort hægt er að breyta einhverju, hvort ástæða sé til þess, eða skýra eitthvað o.s.frv. Það getur þurft að skýra ákveðna hluti. En aðalmálið er að þessi samningur komist til vinnslu í þinginu. Ég þakka aftur fyrir umræðuna sem hér hefur verið.