145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:49]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og fyrir þær vangaveltur sem þingmaðurinn kemur með hér.

Ef ég man rétt er býlisstuðningurinn, ég tek hann sem dæmi, áætlaður um 100 milljónir plús á fyrsta ári og svo upp undir 200 milljónir eða 150–200 milljónir á ári eftir það. Við eigum eftir að útfæra í rauninni hvernig þessum fjármunum verður skipt og það er verkefni Byggðastofnunar að finna þau svæði sem veikust eru. Ég held að hv. þingmaður hafi bent á í síðustu ræðu sinni og fyrr í dag þau svæði sem við vitum að standa mjög veikt. Þetta eru þau svæði sem þingmaðurinn nefndi og það eru líka svæðin fyrir austan og á fleiri stöðum. Þetta á eftir að útfæra. Það getur vel verið að þegar við erum búin sjá útfærsluna, búin að sjá hvernig myndin verður, verði einhverjir hugsi yfir þeirri niðurstöðu, yfir þeirri mynd sem blasir við okkur, ég ætla ekki að útiloka það og get að sjálfsögðu ekki útilokað það. Þá verðum við að skoða hvort við getum brugðist við því, hvort ástæða sé til þess eða hvað.

Það má alveg segja, ef ég man það rétt, að 2008 hafi átt að hætta sérstökum stuðningi sem er í sjálfu sér við þessi 0,7%, ef við köllum þetta 0,7-svæði, en það var ekki gert á þeim tíma. Þetta átti að renna út einhvern veginn eða hætta, ég man ekki hvað þessi stuðningur hét á sínum tíma, það skiptir ekki öllu máli. Við horfum á þetta í dag eins og það er. Við þurfum að útfæra þetta, það er rétt. Ég hef þá trú að gert sé ráð fyrir því í samningunum eins og þeir eru teiknaðir upp í dag að tekið sé á þessum vanda. Ef ekki er það einhver mynd sem blasir við okkur sem þarf þá að nálgast.