145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að fara vandlega yfir þetta mál. Nú þekkjum við alveg þetta fyrirbæri með einhverja svæðisbundna nálgun að hluta til í bland inni í þessu kerfi. Sumir kannast við Árneshreppsákvæðið rómaða, sem oft er kennt við hv. fyrrverandi þingmann og látinn félaga okkar, Einar Odd Kristjánsson, þar sem sérstaklega var tekið tillit til mjög sérstakra aðstæðna í því sveitarfélagi þar sem sauðfjárrækt var nánast eina atvinnugreinin.

Ég tel að þetta séu svo litlir fjármunir. Þó að þetta séu par hundrað milljónir er það lítið og dugar ekki einu sinni til að vega upp á móti því sem er augljóst, að sum svæðin beinlínis missa, sem er mjög tilfinnanlegt. Ég endurtek þetta með úttektirnar á því hvernig Strandasýsla og Norður-Þingeyjarsýsla komu út úr þessu.

Aðeins varðandi framleiðsluþáttinn. Hæstv. ráðherra segir að sauðfjárbændur hafi getað framleitt eins og þeir hafi viljað undanfarin ár eða síðan 2000 og eitthvað. Já, en beingreiðslurnar hafa verið miðaðar við greiðslumarkið sem hefur tekið mið af innanlandsmarkaði. Það hefur alltaf verið þannig að menn hafa mátt framleiða umfram það, en þeir hafa orðið að sætta sig við afurðastöðvaverð og í raun og veru í grunninn skila verri útflutningi vegna þess sem þurfti að flytja út. Í mjólkinni er ástæðan önnur. Þar hvöttu menn til þess í bjartsýni sinni fyrir tveimur, þremur árum að bændur framleiddu eins og þeir lífsins mögulega gætu og bændur brugðust svo snöggt við að framleiðslan stórjókst og nú er ljóst að menn fóru fram úr sér og gerðu of mikið í þeim efnum. Það sýnir líka hvað þetta er næmt og hvað menn þurfa að fara varlega gagnvart því ef þeir vilja ekki lenda í hremmingum af því tagi að skapa þó ekki sé nema þá tilfinningu á markaðnum að framleiðslan sé orðin mun meiri en þarfirnar eru, þá byrja menn að ganga á lagið og lækka verðin o.s.frv. Auðvitað vilja framleiðendurnir helst að það glitti frekar í vöntun inn á markaðinn en offramboð. Það eru þær aðstæður sem þeir vildu frekast sjá, en hafa að sjálfsögðu axlað sínar skyldur að sjá til þess að varan sé þá í boði. Þetta er næmt jafnvægi sem reynslan kennir okkur að mjög (Forseti hringir.) lítið má fara úrskeiðis gagnvart, til þess að það geti ekki haft mjög skaðleg áhrif á kjör bænda, hag afurðastöðva og fleiri aðila.