145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir það hversu grandgæfilega hún hefur farið yfir þetta frumvarp. Hugurinn með frumvarpinu var mjög góður en að mörgu leyti var það meingallað. Hér eru 12–14 breytingartillögur við frumvarp sem þó er bara 25 greinar. Þetta lítur samt allt miklu betur út en áður.

Hv. þingmaður kom víða við í sinni yfirgripsmiklu ræðu, allt frá því að nefna hið þjóðþekkta þorrablót í Garðabæ yfir í það að vera með aðfinnslur gagnvart stórum matreiðslustöðum þar sem hann segir að fyrir komi sá ósiður að menn hafi þar í vinnu fólk sem ekki sé faglært. Þá vil ég, vegna kynna minna af hv. þingmanni, segja að miklu frekar vildi ég koma á matreiðslustað sem hann, ófaglærður, mundi standa fyrir matreiðslu á fremur en margur matreiðslumeistarinn. Þar með er lofi mínu lokið um nefndina og hv. þingmann.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í 1. gr. breytingartillagnanna. Þar er hinu upphaflega frumvarpi breytt með þeim hætti að húsnæði sem er leigt út er ekki skilgreint sem atvinnuhúsnæði ef um er að ræða leigu sem nær ekki yfir 90 daga eða tekjurnar fara ekki yfir 2 millj. kr. Nú mun ég í umræðum um frumvarp sem er næst á dagskrá gera athugasemd við 2 milljónirnar en mun ekki gera það á þessu stigi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Af hverju hverfum við ekki frá því að hafa þetta fasta upphæð í lögunum og tengjum þess í stað við verðlag? Við vitum að það er með reglulegu millibili verið að breyta þessari upphæð. Hvers vegna sláum við þetta ekki bara í gadda í eitt skipti fyrir öll, tökum ákvörðun um tiltekna upphæð — ég er reyndar þeirrar skoðunar að hún ætti að vera hærri — og tengjum hana við verðlag? Þá þurfum við ekki að standa hérna þriðja hvert ár og breyta.