145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð og nefndarinnar, en ástæðan fyrir því sem hann nefnir hér réttilega, að hér séu lagðar til 2 milljónir og ekki talað um verðlagshækkanir, er í stíl við ýmsar gjaldskrárheimildir sem eru í lögum. Þessi tala er tvöföldun á því sem áður var. Hún hefur farið úr 500 þús. kr., eins og var fyrir nokkrum árum, í þessa upphæð núna. Það er rétt að benda á það, þó að það frumvarp komi fram síðar, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að þeir sem eru undir þessari veltutölu, af framteljendum til virðisaukaskatts, eru að fá nettó töluvert mikinn innskatt greiddan út, þ.e. þeir eru með meiri innskatt en útskatt. Þar munar þó nokkrum milljörðum.

Það sem vakti fyrir nefndinni var að hækka þetta þannig að þarna væri klárt að af þessum 2 milljónum yrði þá greiddur fjármagnstekjuskattur; þetta væri til einföldunar, þetta væri ekki til þess að skatturinn væri að eltast við þessa aðila sem eru, ef ég man rétt, 7.500. Það er líka verið að hugsa um að þetta sé einfaldara fyrir skattyfirvöld að fylgjast með. Auðvitað mætti hugsa sér að binda þetta einhverri vísitölu en þessi leið var farin að þessu sinni, að negla þessa upphæð í 2 milljónum. Og, nota bene, það er ekki bara fyrir þessa starfsemi heldur aðra starfsemi einnig þannig að menn sem baka flatkökur í bílskúrnum eru undir sömu sök seldir svo að ég nefni dæmi.

Eins og ég segi var þessi leið farin að þessu sinni.