145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki er það alls kostar rétt hjá hv. þingmanni að þessi leið hafi verið farin „að þessu sinni“. Þetta er í fjórða sinn sem þessi leið er farin. Við höfum ekki alltaf búið við það að verðlag sé tiltölulega stöðugt eins og hefur verið síðustu ár, alveg frá því að við risum eins og fuglinn Fönix upp úr öskustó bankahrunsins. Við þekkjum það líka að þingið er ekki mjög fúst til þess að taka mjög oft á svona málum. Þess vegna líður alltaf töluverður tími á milli og á meðan lækkar þessi upphæð að raungildi. Það getur vel verið að eftir nokkur ár verði hún orðin að raungildi miklu lægri en hún er í dag. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé best að tengja þetta við verðlag, þessa upphæð í lögunum, og sömuleiðis þá upphæð sem er í skylduákvæði í því frumvarpi sem verður rætt hér á eftir. Þetta er nú mín skoðun og mér fannst að skýringar hv. þingmanns væru svona „af því bara skýringar“. Ég undrast að þeir nákvæmnismenn sem eru nú í forustu atvinnuveganefndar skuli ekki hafa tekið gerr á þessu.

Hafi ég skilið upphafssetningu í andsvari hv. þingmanns rétt er ríkið á svona breytingum, sem er að finna í fyrstu tillögugreininni og í því frumvarpi sem við ræðum hér á eftir, að spara sér milljarða. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi. Ef svo er, og ég geri engar athugasemdir við það, er ég hins vegar þeirrar skoðunar að málið eigi að koma út á sléttu þannig að upphæðin sem menn velja, þ.e. sú sem hugsanlega ætti að vera þarna í staðinn fyrir 2 milljónirnar, eigi að ákvarðast með þeim hætti að ljóst sé að ríkið komi út á sléttu. Ég geri mér grein fyrir því að það hefði tiltekinn ávinning fyrir þá sem þessu sæta en að öðru leyti má líta svo á (Forseti hringir.) að í þessu felist tillaga um skattahækkun. Ég undrast að formaður hv. atvinnuveganefndar skuli standa í svoleiðis bixi. Hv. þingmaður skýrir það hugsanlega út á eftir og þá fellir hann kannski niður það dauflega bros sem leikur um varir hans núna.