145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að benda á það augljósa, að landsmenn séu nú orðnir vanir því, síðan þessi góða ríkisstjórn sem nú situr kom til valda, að stöðugleiki í verðlagi hefur aldrei verið meiri þannig að það munar ekki mikið um verðhækkanir þessa mánuðina. Hitt er svo annað mál að það er alveg sjálfsagt, og mér finnst það bara eðlilegt og okkur er það ljúft og skylt, að taka málið til nefndar milli 2. og 3. umr. og fara yfir það hvort rétt sé að tengja þessa upphæð virðisaukaskattsviðmiðum þannig að hún taki breytingum. Það er ekkert sem mælir á móti því.

Hv. þingmaður skildi mig sem svo að það yrði sparnaður af því að gera þetta vegna þess að við mundum spara marga milljarða í innskatti en það er kannski ofmælt vegna þess að þeir sem stunda þessa starfsemi hafa enn þann möguleika sem áður að telja fram eins og þeir hafa gert. Það er hins vegar, líkt og ég sagði í mínu fyrra andsvari, fyrst og fremst um það að ræða — allur þessi fjöldi sem er í þessum flokki, 7.500 eða hvað þeir nú eru — að þetta sparar kannski ríkinu þó nokkuð í eftirliti. Eftirlitið getur þá beinst að þeim sem eru í færum til að svíkja undan ef þannig er og hafa stærri og meiri rekstur undir og er mikilvægara að fylgst sé gaumgæfilega með.

En það er sjálfsagt að taka þessa tillögu hv. þingmanns og að nefndin gaumgæfi hana milli 2. og 3. umr.