145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar hugleiðingar. Jú, ég hef skilið það þannig að þeir sem á annað borð skrá sig sem gististað fái númer. Það er bæði til þess að auðvelda þeim sem hafa uppi rafrænt eftirlit að fylgjast með á bókunarsíðum og ekki síður, þess vegna var það nú sett inn að merkja húsnæðið, til þess að auðvelda eftirlitsaðilum eins og lögreglunni að sjá það á færi hverjir eru merktir og hverjir ekki; auk þess, eins og ég sagði í ræðu minni hér áðan, að gefa þeim sem gista til kynna að viðkomandi gistiheimili sé skráð á lögmætan hátt.

Það er alveg hárrétt, sem hv. þingmaður segir, að það verður alltaf erfitt að fylgjast með þessari starfsemi í þaula. Spurningin er líka hvað eftirlitið megi kosta til að það borgi sig. Þess vegna fór nefndin þá leið að reyna að einfalda málið, gefa mönnum tvo möguleika, annars vegar 90 dagana — það fór mikil umræða í það hvort það ætti að vera styttra o.s.frv., en lendingin var sú að taka þessa 90 daga en segja og/eða 2 milljónir, hvort sem kemur fyrst. Með því töldum við að við værum að koma til móts við sem flesta, af því að þessi hópur er ekki einsleitur, hann er margvíslegur. Við vorum líka að hugsa um, þess vegna voru 90 dagarnir settir inn, bændagistingu og gistingu sem er fjarri höfuðborgarsvæðinu sem er kannski einungis með þessa 90 daga að hámarki virka á ári. Þess vegna vildum við reyna að hlaupa í föt Salómons heitins og reyna að finna þarna einhvern einn tón sem væri til þess fallinn að allir gætu við unað.