145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er ágætt að þetta liggi nokkuð ljóst fyrir af því að ég tel að þetta geti verið vandkvæðum bundið. Hér er talað um, eins og hv. þingmaður fór yfir, að beina því til iðnaðar- og viðskiptaráðherra að bókunarþjónustan — ég skil það sem svo að það séu Booking og Airbnb og fleiri erlendar veitur — eigi að skila upplýsingum. Ég veit ekki alveg hvernig það nær yfir höf og lönd, það getur vel verið að það sé vel gerlegt og ég vona það. Það skiptir máli í þessu samhengi.

Ég er í sjálfu sér ánægð með breytingarnar sem frumvarpið hefur tekið. Ég ræddi það töluvert þegar það kom til 1. umr. Mér sýnist að breytingarnar séu allar til góðs sem hér eru settar fram.

Það er eitt sem ég vil spyrja um í þessu samhengi líka svo að það sé skýrt: Ef ég á tvær fasteignir og þær eru báðar merktar með þessu númeri jafnvel þótt önnur þeirra sé heimili mitt og ég leigi hana bara viku á ári, þá fellur hún samt undir þetta. Hér er verið talað um 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, erum við þá að tala um fasteignagjöldin? Ef ég á tvö húsnæði í dag og annað þeirra hefur fengið á sig fasteignagjöld atvinnuhúsnæðis, af því að það hefur farið yfir tiltekinn dagafjölda í leigu, þá mundi það falla út núna fari það ekki upp fyrir þessi viðmiðunarmörk eða fara aftur í hefðbundið viðmið íbúðarhúsafasteignar.

Ég vil lýsa ánægju minni með þetta og ég vona að við getum tekið á því sem hér kemur fram varðandi fjöleignarhúsin, að þessi dómur falli tiltölulega fljótt í Hæstarétti þannig að við getum klárað þann fasa. Það er auðvitað mjög bagalegt og það (Forseti hringir.) tekur meðal annars á því sem þingmaðurinn fór yfir varðandi nektarsýningar og mansal eða annað slíkt — blokkaríbúðir hafa hreinlega verið leigðar út í partístand og ýmislegt fleira. Ég held að það sé eitthvað (Forseti hringir.) sem við þurfum að huga vel að og fylgjast með og taka fyrir um leið og dómsniðurstaða liggur fyrir.