145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[20:39]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Öllum kom hann til nokkurs þroska, sagði Snorri Sturluson í frægum orðum um Erling Skjálgsson og hið sama má segja um hv. framsögumann og formann atvinnuveganefndar. Á seinni tímum hefur brotist fram í honum áður óþekktur vilji til friðar og sátta, svo ríkur að það smitar yfir á aðra nefndarmenn. Hér hefur verið gerður töluverður rómur að þeirri miklu eindrægni sem ríkir í atvinnuveganefnd og ég sá af viðbrögðum hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar við ábendingum mínum áðan að það er fullur vilji til þess að halda áfram á þeirri miklu friðarbraut sem hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar, hefur rutt. Hv. þm. Þorstein Sæmundsson sagði í mjög jákvæðum undirtektum við ábendingum mínum að það væri sjálfsagt að taka málið aftur til skoðunar milli 2. og 3. umr. og skoða þar hvort ekki væri rétt að tengja þetta við breytingar á vísitölu. Ég tel að það væri mjög vel til fallið.

Sömuleiðis vil ég, og það er aðalerindi mitt í þennan stól, herra forseti, þakka hv. framsögumanni, Þorsteini Sæmundssyni, fyrir þessar jákvæðu undirtektir. Svona eiga menn að vinna. Ég verð að segja að það frumkvæði sem hv. atvinnuveganefnd hefur tekið af því að skoða þetta mál í tætlur og koma með gagngerar breytingartillögur er mjög jákvætt. Það er í reynd í annað skipti á þessum degi sem kemur í ljós að í sumum málum leyfir þingið sér að taka sjálfstætt frumkvæði og skoða rækilega frumvörp sem koma frá ríkisstjórninni og breyta þeim svo að segja í grundvallaratriðum. Ég lít svo á að þær breytingar sem voru t.d. gerðar hér og samþykktar fyrr í dag á frumvarpi um almennar félagsíbúðir hafi verið grundvallarbreytingar þar sem nefndin stóð öll saman að og breytti málinu mjög með jákvæðum hætti. Hið sama sjáum við í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir, að nefndin undir forustu hv. þingmanns, friðarhöfðingjans Jóns Gunnarssonar, hefur skoðað málið og breytt því í grundvallaratriðum þannig að það horfir miklu betur við þeirri atvinnustarfsemi sem málið á að varða.

Það ber auðvitað að þakka. Ég hef að vísu lagt hér fram ýmsar hugmyndir sem jaðra við aðfinnslur en hv. framsögumaður málsins, Þorsteinn Sæmundsson, hefur sýnt mér fram á það að innan nefndarinnar er fullur vilji til þess að taka tillit til ábendinga þingheims og hefur lýst því yfir mjög skýrt að málið verði skoðað milli 2. og 3. umr. Ég leyfi mér að taka það sem fyrirheit um að þessi hugmynd verði skoðuð, hver sem niðurstaðan verður, en skora bæði á hv. framsögumann og formann nefndarinnar að halda áfram á þeirri sáttabraut sem hér er að leiða til áður óþekktrar eindrægni um jafn viðkvæmt mál og þetta.

Þetta voru þau orð og þetta var erindi mitt í ræðustól, að þakka þeim hv. þingmanni sem nú situr hér bak mér og stýrir þinginu fyrir þær jákvæðu undirtektir sem hann galt við máli mínu áðan.