145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að gera að umfjöllunarefni frétt sem landlæknir setti á heimasíðu sína fyrir stuttu síðan og snýr að rétti ljósmæðra til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum. Nú er það þannig í sumum löndum sem við berum okkur saman við, annars staðar á Norðurlöndum t.d., að þar hafa ljósmæður rétt til að ávísa getnaðarvarnarlyfjum og jafnvel hjúkrunarfræðingar líka. Hér var flutt frumvarp á löggjafarþingi 2011 og 2012 þar sem átti að festa þennan ávísunarrétt í sessi fyrir bæði hjúkrunarfræðinga og ljósmæður, en það dagaði uppi. Nú kallar landlæknir eftir því að farið verði í þessar breytingar og embættið hefur í raun kallað eftir þessu allt frá árinu 2008. Mér finnst stundum þegar við erum að horfa á heilbrigðiskerfið, jú, vissulega vantar meiri peninga í kerfið, en mér finnst við kannski ekki horfa á það hvernig við getum fengið meira fyrir þá fjármuni sem við setjum í kerfið. Það má líka spyrja, miðað við þær ótrúlega vel menntuðu heilbrigðisstarfsstéttir sem við höfum, hvort við nýtum þær nógu vel. Nýtum við sjúkraþjálfara, næringarfræðinga, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, eins vel og við gætum? Ef ég fæ í bakið þarf ég endilega og fara og tala við heimilislækninn? Korter með sjúkraþjálfara gæti kannski komið mér lengra.

Þannig að ég kasta þessu fram. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra varðandi þetta mál því að mér finnst svo einboðið að ráðast í þessar aðgerðir og hlusta á landlækni sem ég hef mætur á. Mér finnst hann mæla af skynsemi gjarnan og hugsa virkilega um það hvernig við getum bætt þjónustuna og fengið meira fyrir það fjármagn sem við setjum í kerfið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna