145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna segir að niðurstaða um mat á nothæfisstuðli Reykjavíkurflugvallar sem fram kemur í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu sé rangt og að ekki sé reiknað með bremsuskilyrðum. Það kemur fram í frétt Morgunblaðsins í fyrradag. Nothæfisstuðullinn sé ekki reiknaður út í samræmi við verklag Alþjóðaflugmálastofnunar. En Ísland er aðili að henni og ber samkvæmt því að fylgja þeim reglum sem gilda um og samþykktar hafa verið um útreikning á nothæfisstuðli flugvalla.

Eftir ítarlega athugun öryggisnefndarinnar og með vísan í gögn sem hún fékk á grundvelli upplýsingalaga um samskipti Eflu og Isavia er niðurstaðan sú að útreikningur nothæfisstuðulsins á 06/24-brautarinnar er rangur og alvarlegasta villan í skýrslu Eflu er að ekki er reiknað með bremsuskilyrðum á flugbrautunum. Alþjóð veit að Reykjavíkurflugvöllur gegnir margháttuðu hlutverki. Öryggi flugfarþega og áhafna á að vera í algjöru fyrirrúmi og þegar slys og alvarlega sjúkdóma ber að er afar mikilvægt að eiga þess kost að komast fljótt og öruggt undir réttar læknishendur. Fólk á líf sitt undir því. Braut 06/24, svokölluð neyðarbraut, hefur gert það að verkum að litlar vélar sem nýttar eru í sjúkraflug hafa lent við skilyrði sem ekki er hægt að lenda þeim í á öðrum brautum. Það hefur aukið öryggi til muna og skiptir okkur öll máli.

Héraðsdómur hefur kveðið upp þann dóm að loka eigi þeirri braut að viðlögðum dagsektum upp á 1 millj. kr. og hefur innanríkisráðuneytið áfrýjað dómnum.

Það er grafalvarleg staða ef skýrslur sem miða að því að meta flugöryggi með tilliti til lendingarskilyrða eru unnar út frá röngum forsendum. Með leyfi forseta, vitna ég hér til (Forseti hringir.) orða Ingvars Tryggvasonar, flugstjóra og formanns öryggisnefndar: (Forseti hringir.)

„Það er grundvallaratriði að úrvinnsla er varðar (Forseti hringir.) flugöryggismál sé unnin með lögmætum og óvefengjanlegum hætti.“


Efnisorð er vísa í ræðuna