145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eins og flestir samþingmenn mínir hafa tekið eftir í gegnum tíðina er ég mikil áhugamanneskja um betri starfsumgjörð og styrkingu þingsins. Því miður er það svo að ég er búin að vera hér í sjö ár og hef ekki getað séð miklar framfarir þrátt fyrir að við höfum haft mörg tækifæri til að styrkja og efla þingið. Mig langaði því að velta því upp hvort öðrum þingmönnum fyndist ekki vera tilefni til að skoða það að fara að fordæmi Finna sem settu á fót framtíðarnefnd og hvort við ættum jafnvel að taka okkur það til fyrirmyndar. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að endurskoða nokkuð hvernig nefndirnar hér eru settar upp því að fjallað er um gerólík málefni í nefndunum. Ég sé fyrir mér Alþingi geta verið vettvang þar sem við getum unnið saman, þingmenn allra flokka, að málefnum er lúta að framtíð landsins, að langtímastefnumálum, að við hættum stöðugt að fókusera á næsta ár og gerum þá eins og hefur komið fram í ræðum þingmanna Framsóknarflokksins og byggjum á sögunni. Ef fólk hefði ekki haft langtímasýn fyrir 40 árum væru engar breytingar, þá væri kynjahlutfallið enn þá mjög skrýtið í landinu. Við verðum að hafa hugrekki til að taka stór skref. Við verðum að hafa hugrekki til að horfa inn í framtíðina og stefna þangað saman. Þingið er besti vettvangurinn til þess. Þar getum við þingmenn, sem erum fulltrúar fyrir alla landsmenn, komið saman að því að móta og skapa framtíðina. Því legg ég til að við skoðum af fullri alvöru að búa til framtíðarnefnd Alþingis.


Efnisorð er vísa í ræðuna