145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða stöðu ungs fólks í þinginu. Ég vil byrja á því að segja að fjárveitingavaldið hvílir á Alþingi. Menn geta horft þannig á að fjármálaráðherrann haldi utan um pyngjuna en það er Alþingis að veita fjárheimildir eftir tillögum sem lagðar eru fyrir þingið. Fjárveitingavaldið hvílir hjá Alþingi. (Gripið fram í: Þú hefur engin áhrif á það?)

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hverfa aftur til ársins 1990 og velta fyrir sér stöðu ungs fólks. Ég var tvítugur árið 1990. Frá því að ég var þriggja ára þar til árið 1990 rann upp og ég var orðin tvítugur var verðbólga á Íslandi stanslaust, ávallt, á hverju ári, á hverjum tíma, yfir 20%. Oft 30, stundum 40, hún fór yfir 100% en hún var að jafnaði mæld og alltaf í tugum prósenta, frá því ég fór inn á leikskóla og þar til ég kom út úr menntaskóla. Það sem við tók var meira stöðugleikatímabil. Það sem við upplifum í dag er verðbólga upp á 1,6%. Stöðugleiki í efnahagsmálum er eitt helsta hagsmunamál ungs fólks. Hvaða atriði eru það sem eru hér nefnd sérstaklega til umræðu og mér finnst skipta máli að veita athygli? Ábendingar um að unga kynslóðin í landinu njóti ekki með sama hætti góðs af þeim uppgangi sem er að verða í efnahagsmálum og aðrir þjóðfélagshópar. Það sem er um að ræða er í raun og veru það að ungt fólk hafi ekki hlutfallslega notið jafn mikils af auknum efnahagsumsvifum og aðrir hópar.

Almennt ættu allir Íslendingar að hafa það mun betra í dag en á þessum samanburðarárum frá 1990. Um það verður varla deilt. Kaupmáttur hefur vaxið svo mikið, landsframleiðsla á Íslandi er svo miklu betri. Ímyndið ykkur allar umbætur sem við höfum gert í samneyslunni, í ýmsum stuðningskerfum. Mætti ég nefna sem dæmi, fyrst barneignir eru nefndar, að það var ekki til fæðingarorlof á þeim tíma í því formi sem við þekkjum í dag. Fæðingarorlofssjóður, rétturinn til töku fæðingarorlofs með þeim hætti sem við höfum tryggt í dag í lögum var einfaldlega ekki til staðar á samanburðartímanum. Samt segir fólk að staða ungs fólks sé verri í dag en hún var þá. Ég segi: Eitt helsta hagsmunamál ungs fólks er öflugt menntakerfi og geta þessa hagkerfis til að skapa ný, spennandi störf. Á Íslandi mælist atvinnuleysi í algjöru lágmarki, samkvæmt nýjustu tölum öðrum hvorum megin við 3%. Þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ungt fólk.

Svo eru það húsnæðismálin sem eru reglulega rædd hér og eru rædd í velferðarnefnd í tilefni af þingmálum sem eru komin fram. Menn velta fyrir sér hvað við getum gert meira. Ég vil að stjórnvöld bretti upp ermar og skoði enn frekar hvað við getum gert með opinberri aðkomu til að gera ungu fólki það betur kleift að koma sér þaki yfir höfuðið. Í því efni erum við t.d. að skoða framlengingu á séreignarsparnaðarleiðinni og bætta og betri útfærslu. Við getum kannski kallað það séreignarsparnaðarleiðina plús. En við verðum líka að gefa því gaum varðandi húsnæðismálin að húsnæðismarkaðurinn er markaður sem ræðst eins og flestir aðrir markaðir af framboði og eftirspurn. Í augnablikinu er það þannig þegar við horfum á húsnæðisverð, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, að það eru verktakarnir, byggingaraðilarnir, sem skafa til sín verulegan hluta af endanlegu söluverði íbúðanna. Við þær aðstæður þurfum við að gæta að okkur að bæta ekki enn getu fólks til að styrkja eftirspurnarhliðina ef ekkert er gert á framboðshliðinni, vegna þess að það ratar allt beint út í verðið. Af þeirri ástæðu er svo mikilvægt að það sé gott samtal (Gripið fram í.) við sveitarfélögin og að það sé tryggt framboð af lóðum til bygginga. Að öðru leyti verðum við að beygja okkur undir lögmál markaðarins.

Við ættum líka að taka á Alþingi dýpri umræðu um raunverulega hagsmuni ungu kynslóðarinnar þegar kemur að því að eignast eigið húsnæði borið saman við það að komast inn í félagslegt leiguíbúðakerfi, vegna þess að þau dæmi sem við höfum frá öðrum löndum sýna að það er gríðarlega mikill ávinningur af því fyrir fólk að nýta starfsævina til að eignast eigið húsnæði. Staða fólks sem hefur varið allri starfsævi sinni í leiguhúsnæði er almennt séð mun verri (Forseti hringir.) í öðrum löndum en hjá þeim sem hafa eignast eigið húsnæði.

Það er að mörgu að hyggja, (Forseti hringir.) allt frá námsvali til þess að skapa störf, umbætur í námslánakerfinu, já, betri réttindi til þess að eignast börn og frekari hvatar þar og húsnæðismarkaðurinn. (Forseti hringir.) Við þurfum að gera það áfram spennandi fyrir ungt fólk að búa hér og festa rætur.