145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:05]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og tækifærið til að minna okkur á að nú er 21. öldin runnin upp. Það er búið að finna upp flugvélar sem fljúga til landsins og frá því, það er búið að skrifa undir samninga sem gera fólki kleift að búa í öðrum löndum og það er búið að finna upp internetið sem gerir fólki auðvelt að búa í öðrum löndum. Ísland er í samkeppni um fólk við nágrannalöndin og við önnur lönd, útlenskt fólk en líka íslenskt fólk. Eins og kom fram í máli hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur er staðan sú að við bjóðum ungu fólki ekki upp á mikla von á Íslandi.

Vissulega er staðan betri en hún var t.d. 1990 eins og hæstv. fjármálaráðherra benti á en unga fólkið er ekki með tækni til að koma sér aftur til 1990, það er með tækni til að flytja til Norðurlandanna eða annarra landa. Það er vissulega gott að vita til þess að við séum ekki að skríða aftur á bak en framtíðin er á 21. öldinni, ekki þeirri 20.

Við höfum því miður verið í kerfi og búið við ríkisstjórn sem hefur forgangsraðað til þeirra sem fyrir eru. 80 milljarðar voru settir í skuldaleiðréttingar sem hafa fyrst og fremst nýst minni kynslóð og þeim sem eldri eru. Kaupmáttaraukningin, eins og komið hefur fram, er fyrst og fremst hjá þeim sem eldri eru. Breytingar í skattkerfinu hafa fyrst og fremst nýst fólki sem er með þingmannalaunataxta og það er yfirleitt ekki yngsta kynslóðin. Hækkun matarskatts bitnar mest á fjölskyldufólki. Skattalækkanir sem urðu í þeim skattbreytingum skila sér ekki, t.d. á fötum, enda eftirfylgni með þeim breytingum í skötulíki.

Það sem okkur vantar (Forseti hringir.) er raunveruleg framtíðarsýn þar sem við ætlum að sýna jöfn tækifæri fyrir ungt fólk í framtíðinni, fjölbreytt atvinnutækifæri o.s.frv. Það þýðir ekki endalaust að hugsa um stöðuna akkúrat í dag eða næstu fjögur árin.