145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Kjör ungs fólks eru samsett af mörgum þáttum, m.a. hvernig velferðarkerfið er og grunngerð samfélagsins. Ég vil aðeins fókusera á stöðu ungs fólks á landsbyggðinni. Margir hlutar landsbyggðarinnar glíma við það að missa ungt fólk frá sér og margir segja að menn séu að mennta unga fólkið frá sér og það skili sér ekki aftur. Nú vilja allir stuðla að því að öflug menntun sé í boði og landsbyggðin þarf á því að halda að öflug menntun sé í boði hvar sem er á landinu og aðgengileg. Þessi ríkisstjórn hefur aldeilis dregið lappirnar í þeim málum og komið í veg fyrir að menntun sé eins aðgengileg og var áður með 25 ára reglunni varðandi aðgengi að framhaldsskólum.

Ungt fólk á að hafa möguleika á að velja sér búsetu hvar sem er á landinu. Það þekkja allir sem hafa búið úti á landi með ung börn að þar er gott að ala upp börn, en eðlilega gerir unga fólkið þá kröfu að grunngerðin sé í lagi, menntun í lagi, boðið upp á góða heilbrigðisþjónustu og leikskóla, að skólakerfið og allir samfélagslegu þættirnir séu í lagi, að samgöngur séu í lagi svo eitthvað sé nefnt.

Þetta skiptir allt máli og á þetta hafa stjórnvöld hverju sinni áhrif. Hér hafa stjórnvöld dregið lappirnar varðandi ýmis mál. Allt of hægt er farið í fjarskiptauppbyggingu með háhraðanetstengingu sem og uppbyggingu samgöngumála. Heilbrigðismálin eru ekki í lagi vítt og breitt um landið. Það þarf miklu meira fjármagn í að styrkja heilbrigðiskerfið.

Ísland er velmegandi land og hefur alla burði til þess að bjóða ungu fólki að búa við góð kjör, (Forseti hringir.) en við erum ekki að gera það í dag. Eitthvað er að. Sú hægri ríkisstjórn sem hefur ríkt hér síðastliðin þrjú ár hefur ekki forgangsraðað í þágu ungs (Forseti hringir.) fólks.