145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:17]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið en hef jafnframt enn af því nokkrar áhyggjur að einhverjir hv. þingmenn og jafnvel ráðherrar átti sig ekki alveg á um hvað er að ræða. Það er nefnilega ekki þannig, svo ég leiðrétti hæstv. ráðherra, að almennt ættu allir að hafa það betra. Það er það sem tölurnar sýna okkur, það er það sem ótal hagfræðigreiningar sýna okkur. Árið 1990, þegar hæstv. ráðherra var tvítugur, hefði hann haft meira á milli handanna en þeir sem eru tvítugir í dag. Það eru niðurstöður þessara greininga, það er heila málið. Kannski voru lífsgæðin einhvern veginn öðruvísi, en punkturinn er þessi: Hlutirnir eru dýrari, það er dýrara að borga af lánum, það er dýrara að kaupa inn allt sem þarf og launin eru þá hlutfallslega ekki í takt, þau eru lægri hjá þessum eina hópi, ungu fólki. Aðrir hafa það þó betra, þeir sem eldri eru.

Ég hef sérstaklega áhyggjur af barnafjölskyldum. Mér finnst mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að það er fjárfesting að stuðla að því að fólk hafi efni á að eiga og ala upp börn á þessu landi, að fólk hafi efni á að sækja sér menntun og reyna svo að sækja sér vinnu hér. Þetta unga fólk fær nefnilega ekki strax vinnuna sem það hefur menntað sig til að gegna, (Forseti hringir.) því miður. Þó að atvinnuleysi sé lítið fær það ekki vinnu við hæfi. Það er gott að ráðherra vilji skapa fjölbreytt störf en ég bendi á að það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði var að skera niður fjárfestingaráætlun sem snerist einmitt um það að skapa fjölbreytt störf. Það fyrsta sem hún gerði var að hætta við hækkanir í Fæðingarorlofssjóð.