145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ungt fólk og staða þess.

[16:20]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það fyrsta sem við gerðum var að loka fjárlagagatinu og eitt það fyrsta sem við gerðum var að auka framlög í rannsókna- og tæknisjóðina, vísindasjóðina, til að skapa störf fyrir framtíðina.

Ég veit ekki hversu lengi við ætlum að taka umræðuna um það hvort það sé betra að vera ungur í dag en það var árið 1990. Ég segi bara: Hvort mundi fólk almennt vilja vera tvítugt árið 1990 eða árið 2015? Hvort eru betri réttindi í fæðingarorlofi núna eða eins og þau voru þá? Hvort er betri réttur til að koma börnum á leikskóla í dag eða árið 1990? Hvaða framfarir hafa orðið á framhaldsskólastiginu og háskólastiginu? Hvernig störf eru í boði árið 2015 borið saman við árið 1990?

Þurfum við að ræða eitthvað hvort t.d. lágmarkslaun hafi betri kaupmátt í dag eða árið 1990? Ég bendi á að kaupmáttur launa sem við byrjuðum að mæla árið 1989 hefur aldrei í sögunni verið hærri en í dag. Þetta vildi ég bara hafa sagt um samanburðinn við árið 1990.

Þetta breytir ekki því, sem ég er alveg sammála hv. þingmanni um, að í dag eru margar áskoranir fyrir ungt fólk og við þurfum sem samfélag að gera það eftirsóknarvert fyrir það með sköpun spennandi starfa að festa hér rætur. Samfélagið er opnara eins og sumir þingmenn hafa komið inn á, það er auðveldara að flytjast búferlum til annarra landa og samkeppnin um ungu kynslóðina er mun harðari en hún var þá. Í millitíðinni höfum við t.d. tekið upp samninginn um Evrópska efnahagssvæðið o.s.frv.

Áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir eru ekki síst á húsnæðismarkaðnum en við skulum ekki gleyma að það hefur aldrei verið auðvelt fyrir ungt fólk að eignast húsnæði á Íslandi. Það má kannski segja að þegar offramboð var á lánum á árunum 2004–2007 hafi það verið eitthvað léttara, en það var kannski bjarnargreiði fólginn í því að taka hátt lán á þeim árum með háu veðhlutfalli.

Engu að síður getum við gert betur og ég segi: (Forseti hringir.) Það að halda verðlagi stöðugu, stíganda í kaupmættinum og aukinni fjölbreytni í störfunum erum við á réttri leið. En ég þakka aftur fyrir ágæta umræðu hér í dag.