145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Í frumvarpinu er lagt til að Vegagerðinni verði heimilað að bjóða nú þegar út nýja Vestmannaeyjaferju. Í útboðinu verður heimilt að velja milli þeirra kosta að gerður verði þjónustusamningur um byggingu og rekstur skips til allt að 12 ára, eða samið verði um smíði skips fyrir allt að 4,8 milljarða kr. á verðlagi í árslok 2015.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Vegagerðinni, sem framkvæmdastofnun samgöngumála, verði fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að ganga að hagkvæmasta tilboði í annan hvorn kostinn. Verði valin sú leið að gera 12 ára þjónustusamning um byggingu og rekstur skipsins er gert ráð fyrir að ríkið eignist það að loknum samningstíma á tilteknu útreiknuðu hrakvirði.

Með því að hrinda þessu ferli af stað, sem vonandi mun ljúka sem allra fyrst með smíði nýrrar ferju eða þjónustusamningi um smíði og rekstur ferjunnar, verður hægt að stórbæta þjónustu við Vestmannaeyjar með tíðari og öruggari siglingum milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja sem mikil þörf hefur verið á. Öruggari og tíðari siglingar hafa mikla þýðingu fyrir íbúa í Vestmannaeyjum og atvinnulíf, ekki síst ferðaþjónustu.

Eftir að siglingar hófust til Landeyjahafnar hefur farþegafjöldi aukist úr 130 þús. farþegum árlega, miðað við síðasta heila árið sem siglt var til Þorlákshafnar, í um 300 þús. farþega síðastliðið ár. Þessi aukning hefur orðið þrátt fyrir að siglingar í Landeyjahöfn hafi legið niðri um nokkurra mánaða skeið. Gert er ráð fyrir að í útboðinu verði miðað við að ferðum fjölgi um tvær á viku yfir sumartímann, auk þess sem gert er ráð fyrir að sumartímabilið verði lengt um einn mánuð til að tryggja betri þjónustu.

Sú hönnun sem fyrir liggur miðast við þær aðstæður sem eru í Landeyjahöfn. Fyrirliggjandi útboðsgögn gera ráð fyrir 69 m langri ferju sem getur flutt 540 farþega. Ferjan verður álíka stór og Herjólfur en tekur engu að síður fleiri bifreiðar í hverri ferð. Samkvæmt áætlunum Vegagerðarinnar er gert ráð fyrir að ný ferja geti siglt til Landeyjahafnar í 76–89% tilvika á ári, eða 84% samkvæmt miðspá. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að ferjan verði boðin út á þessu ári er ljóst að hér er um að ræða langt og strangt útboðsferli. Skylt er að auglýsa útboðið á Evrópska efnahagssvæðinu og fara að reglum og viðhafa það verklag sem almennt gildir um útboð sem þetta. Gera þarf ráð fyrir talsvert löngu útboðsferli vegna eðlis þessa útboðs.

Líklegt er að bæði erlendir og innlendir aðilar bjóði í smíðina, því þarf að taka mið af sumarfríum bjóðenda bæði hérlendis og erlendis við ákvörðun á lengd tilboðsfrests. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að hægt verði að auglýsa útboðið í sumar og hægt verði að opna það síðsumars eða í haust. Reikna má með tveimur eða þremur mánuðum í að meta tilboð og undirbúa samningsgerð, þetta er auðvitað bara áætlun. Miðað við allt þetta má gera ráð fyrir að hægt yrði að samþykkja viðunandi tilboð og rita undir samninginn síðar á þessu ári.

Í útboðsgögnum verður gert ráð fyrir að afhending ferjunnar verði um mitt ár 2018 eða fyrr ef nokkur kostur er. Ekki er gert ráð fyrir skuldbindingu vegna Vestmannaeyjaferju í fjárlögum 2016 þar sem ekki var talið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir við gerð fjárlagafrumvarps. Ljóst er að 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, samanber 46. gr. laga um opinber fjármál, mælir fyrir um að lagaheimild þurfi til kaupa eða leigu á fasteignum, skipum og öðrum þeim eignum sem þar eru taldar upp. Með frumvarpi þessu er lagt til að slíkrar lagaheimildar verði aflað í lögum þannig að bjóða megi ferjuna út á þessu ári og vinna þannig verulegan tíma í útboðsferlinu. Í ljósi þess að ekki var unnt að afla fjárheimilda með sérlögum er lagt til að Vegagerðinni verði heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að ganga að hagkvæmasta tilboði í annan hvorn umræddan kost, enda liggi þá fyrir fullnægjandi fjárheimildir til verkefnisins eða að samningur verði að öðrum kosti undirritaður með skýrum fyrirvara um að slíkar heimildir liggi fyrir við samþykkt fjárlaga í haust.

Ég held að sjálfsagt væri að það yrði með einhverjum hætti hluti umræðunnar hér, hvort sem er við 1., 2. eða eftir atvikum 3. umr., og mögulega hluti af umræðu um málið í nefnd og eftir atvikum væri ágætt að tekin yrði afstaða til þess í nefndaráliti að ræða, taka afstöðu til þess hvort menn sjá fyrir sér að afla heimilda með fjáraukalögum á þessu ári ef aðstæður kalla á eða hvort þingið telur einhverra hluta vegna að réttara sé að gengið verði frá samningi um þetta mál með fyrirvara um fjárheimild í fjárlögum ársins 2017. Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég tel eðlilegt að þingið mundi ganga þannig frá málinu að ef aðstæður leyfa síðar á þessu ári að ljúka málinu á árinu með sérstakri fjárheimild, sem gæti eftir atvikum komið í fjáraukanum, þá yrði það bara gert, sem væri að mínu áliti besta samfellan í málinu.

Þetta segi ég með fyrirvara um þann framkvæmdarþátt sem er eftir eftir að þessarar heimildar hefur verið aflað. Verði málið samþykkt á þinginu þá er, eins og ég hef rakið, nokkuð langt ferli við framkvæmd útboðsins fram undan og maður sér svo sem ekki fyrir allt það sem gerst getur í því ferli varðandi nauðsynlega fresti, mögulegar tafir og annað þess háttar. Mér finnst engu að síður sjálfsagt að menn taki þetta með í umræðunni.

Það er gert ráð fyrir útgjöldum vegna þessa verkefnis í útgjaldaramma fyrir samgöngumál í fimm ára fjármálaáætlun áranna 2017–2021, sem nýlega var lögð fram á Alþingi. Ef til þess kæmi að hluti þeirra fjárheimilda færðist inn á árið 2016 mundi það bara skapa eitthvað rými aftar í langtímaáætlun.

Þetta eru þau helstu atriði sem ég vildi koma að við 1. umr. þessa mál. Ég ítreka að ég tel mikinn ávinning af því fyrir okkur að flýta eins og hægt er þessu útboði sem lengi hefur staðið til að ráðast í. Við slógum því á frest vegna hruns fjármálakerfisins og þeirra þrenginga sem ríkissjóður lenti í í kjölfarið, en nú er að birta til. Við erum með þetta í langtímaáætlun. Ástæðan fyrir því að þetta rataði ekki inn í fjárlög var rakin í framsögu minni og nú hafa þau mál skýrst frekar. Ég hef svo sem ekki varið löngum tíma í að úttala mig um það hvorn kostinn ég telji hagkvæmari, það verður auðvitað að leiða af niðurstöðum útboðsins. Mér þykir það góð leið sem unnið hefur verið að í innanríkisráðuneytinu og af Vegagerðinni að halda þessum möguleikum opnum alveg inn í útboðið, þeim tveimur kostum sem lagt er upp með hér.

Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjárlaganefndar til að fjalla um málið.