145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[16:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara neitt út í þetta frumvarp sem komið er fram, en það er auðvitað rétt eins og kom fram í máli ráðherrans að 2008 var boðið út að byggja nýja Vestmannaeyjaferju í stað þess Herjólfs sem nú er. Það yrði gert í svokallaðri einkaframkvæmd þar sem ferja yrði byggð og rekin, en það tilboð sem kom var mjög hátt og því var hafnað. Þá þurfti ég sem þáverandi samgönguráðherra að fara til ríkisstjórnar og fékk heimild fyrir ríkisfjárveitingu til útboðs á verkinu á hefðbundinn hátt. Mér sýnist að hið sama sé verið að gera núna.

Í þessu stutta andsvari langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það að ef þjónustusamningurinn um smíði og rekstur skipsins til allt að tólf ára verður of dýr og of óhagkvæmur, hvort þá sé ekki gulltryggt að það verði heimild upp á 4,8 milljarða á verðlagi þessa árs, árslok 2015, til að byggja ferjuna. Þá er aðalatriði spurningar minnar það hvort eitthvað verði tekið af núverandi samgönguáætlun og skorið niður þar, annaðhvort til vegaframkvæmda, flugmála eða annars, til þess að búa til peninga, ef svo má að orði komast, til að byggja nýjan Herjólf. Það sem ég er einfaldlega að spyrja eftir, er: Verður þetta ekki viðbót við samgönguáætlun, hvort sem er þá áætlun sem nú er, sem mér finnst allt of rýr, eða ef það verður komin ný? Ég er bara að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki gulltryggt að það komi nýr peningur inn, það verði ekki tekið af því sem er í samgönguáætlun í dag.