145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[17:06]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil gera eins og aðrir hv. þingmenn og fagna því að þetta frumvarp sé komið fram. Þetta er einn áfangi og gleðitíðindi fyrir Vestmannaeyjar og landið allt. Ég tek undir með hv. þm. Páli Val Björnssyni sem fór yfir stöðu Vestmannaeyja áðan. Þetta er eins og góður fundur í Vestmannaeyjum. Ég tek undir hvert einasta orð hjá honum. Það eru mörg brýn mál í Vestmannaeyjum en samgöngurnar og heilbrigðismálin eru stóru málin tvö og þau sem eru hvað mikilvægust. Þetta eru grunnþjónustumál í hverju einasta samfélagi og þeim verðum við að sinna af mikilli festu og af fullum áhuga. Hér ræðum eitt af þeim málum sem er hvernig við tryggjum sem tíðastar ferðir um þjóðveginn til Vestmannaeyja, sem sagt siglingar með Herjólfi milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.

Það kom fram í ræðu hjá hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni að mögulegt væri að fara aðrar leiðir. Ég held að þær leiðir séu ekki til umræðu. Eftir að Landeyjahöfn kom til, eftir að tekin var ákvörðun um að sigla til Landeyjahafnar, hafa allir sem hafa nýtt sér þær samgöngur séð hvers lags bylting í samgöngumálum það er þegar Landeyjahöfn er opin. Það er enginn, að ég tel, sem rekur fyrirtæki eða ferðaþjónustu, sem býr í Vestmannaeyjum eða þarf að leita þangað sem vill bakka aftur til Þorlákshafnar. Þegar menn hafa séð betri kostinn vilja þeir halda sig við hann, að sjálfsögðu.

Þá vil ég líka minna á að það tók, held ég, hátt í 40 ár að þróa Þorlákshöfn. Þannig að jú, við erum ekki búin að fullhanna Landeyjahöfn en það er ekki útséð um hvort það geti tekist. Eftir hversu langan tíma er hins vegar ómögulegt að segja.

Ég leggja áherslu á, og tek undir það sem hefur verið sagt í fyrri ræðum, að bygging nýs Herjólfs er aðeins einn liður í því að tryggja samgöngur til Vestmannaeyja. Það verður ekki fullnaðarsigur en vonandi mun það bæta samgöngurnar til muna. Þegar ferjan Baldur leysti Herjólf af vorum við með grunnristara og minna skip sem gat þá siglt mun lengur og við allt aðrar aðstæður. Ég held að það verði raunin með nýja skipið og það muni meira að segja geta siglt mun meira en Baldur gat af því að skipið verður sérstaklega hannað fyrir Landeyjahöfn. Þess vegna ættum við að geta hámarkað nýtingu hafnarinnar miðað við núverandi aðstæður með þessu skipi. Við sjáum líka betur þegar nýtt skip er komið við hvaða vandamál er að etja varðandi hönnun í höfninni. Ef það er kominn fastur botndælubúnaður innan hafnar og annað slíkt getum við nýtt þetta mun lengur yfir árið. Hver vika, ég tala nú ekki um hver mánuður sem bætist við með nýju skipi mun skipta mjög miklu fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum og ekki síst ferðaþjónustuna. Hver vika þar getur skipt miklu máli í því hvort sá rekstur lifi árið af.

Við getum alltaf tekið umræðuna um hversu mikilvægt er að nýtt skip komi vorið 2018, alls ekki seinna og helst fyrr. Þá kemst viss reynsla á skipið yfir sumarið og við sjáum hvernig það virkar. Það er oft með ný skip, bíla og öll ný tæki að það geta verið einhvers konar byrjunarerfiðleikar. Ég tek því undir að það liggur ekkert á að selja Herjólf. Við skulum sjá hvernig þetta fer af stað og fá einhverja reynslu. Svo má ekki gleyma að við erum með fleiri ferjur hér á landi og allar þurfa þær að fara í slipp og það kostar að leigja aðrar ferjur á meðan. Það þarf því ekki endilega að vera dýrt fyrir ríkið að eiga Herjólf áfram fyrir ýmis verkefni sem eru til staðar ef nýr Herjólfur þarf að fara í slipp eða ef bregðast þarf við einhverjum aðstæðum sem geta komið upp eftir að nýja skipið er komið til landsins.

Síðan er það mikilvægt sem gerist á meðan við bíðum, þessi tvö ár sem geta verið lengi að líða. Það þarf að tryggja að þjónustan á Herjólfi og í höfninni núna sé sem best og reyna að tryggja að hægt sé að dýpka og hafa aðstæðurnar þannig að hægt sé að sigla sem lengst á Herjólfi til Landeyjahafnar og að ef sigla þarf til Þorlákshafnar sé sama fargjald á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, að fargjald í Landeyjarnar gildi líka í Þorlákshöfn. Það er gríðarlega mikilvægt upp á jafnræði og búsetuskilyrði því að þegar farið var af stað með höfnina var þetta eitt og sama verkefnið, Landeyjahöfn og báturinn, Herjólfur. Það á ekki að bitna á íbúum Vestmannaeyja að ríkið sé ekki búið að byggja skipið fyrr, eins og það hefur gert hingað til. Þá þarf líka að vera hægt að fjölga ferðum eins og hægt er og annað slíkt. Það eru svona hlutir sem við þurfum að hafa á hreinu þangað til og mikilvægt að tíminn sé nýttur, eins og ég kom inn á áðan, í að finna varanlegan dýpkunarbúnað innan hafnar. Við þurfum að nýta tímann vel.

Þeir sérfræðingar sem hafa komið að þessu máli segja mér að ef nýja skipið hefði verið komið fyrir þennan vetur hefði það siglt mun meira án dýpkunar, nema náttúrlega með dýpkun innan hafnar. Ég veit ekki nákvæmlega hversu miklu lengur en það er allt í skoðun. Við skulum hafa það í huga.

Það er líka gott að minnast á að ný ferja verður hagkvæmari í rekstri. Það er mun ódýrara að sigla til Landeyjahafnar, eins og gefur að skilja, en til Þorlákshafnar vegna eldsneytiskostnaðar og launakostnaðar og annars slíks. Ef við erum komin með nýja ferju sem er rafstýrð að hluta mun eldsneytiskostnaður og rekstrarkostnaður dragast enn meira saman. Fjárfestingin verður jafnvel hagkvæmari fyrir ríkissjóð þegar upp er staðið. Það skiptir miklu máli. Að fá nýja ferju er ekki glötuð fjárfesting ef eitthvað annað kemur upp á og mun fljótlegri og ódýrari leið en að byrja á að framkvæma eitthvað við höfnina sem við vitum ekki hvort virkar eða ekki, þó að við þurfum að halda áfram að skoða allar leiðir í því.

Það hefur líka verið komið inn á hér, sem skiptir miklu máli í þessu, þá gríðarlegu samstöðu sem hefur verið heima fyrir í Vestmannaeyjum, sérstaklega innan bæjarstjórnar, um hvaða leið menn vilja. Það er samstaða í Vestmannaeyjum um að fara út í Landeyjahöfn. Deilurnar hafa kannski meira verið um hver forgangsröðun eigi að vera, hvernig eigi að breyta höfninni, hvort fyrst eigi að breyta höfninni áður en skipið er gert og annað slíkt. En bæjarstjórnin og bæjarbúar hafa alltaf staðið saman um þessa grunnmeginstoð, að tryggja siglingar milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja allan tímann. Það skiptir miklu máli og mikilvægt að þannig verði áfram.

Þetta er það helsta. Ég fagna þessum áfanga. Ég mun óska Vestmannaeyingum og þjóðinni allri til hamingju þegar skipið siglir heim til Vestmannaeyja, það borgar sig ekki að fagna of snemma. En þetta er eitt mikilvægasta málið fyrir uppbyggingu Vestmannaeyja ásamt náttúrlega heilbrigðisþjónustunni og annarri grunnþjónustu sem við munum fylgja fast eftir á þinginu. Ég vona að svona mikilvægt mál fái skjóta og góða afgreiðslu á þinginu svo að útboð megi fara af stað sem fyrst. Eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á vitum við ekki hvaða hindranir geta verið í veginum. Það mega ekki verða óþarfatafir í þessu máli sem hefur því miður ekki komist fyrr á dagskrá út af ýmsum hindrunum. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að málið fari hratt en örugglega hér í gegn. Það eru líka miklir hagsmunir fólgnir í því að koma þessu sem fyrst í útboð miðað við stöðu hjá skipasmíðastöðvum og annað slíkt. Það er mikilvægt að þetta komi ekki seinna en vorið 2018, eins og ég fór yfir áðan, upp á að þjálfa og prófa skipið og æfa áhöfnina, hún þarf að fá að læra við sumaraðstæður en ekki vetraraðstæður.

Við vonum það besta og vonum að þetta gangi allt saman vel fyrir sig og að við sjáum í sem nánastri framtíð öruggar, góðar og tryggar samgöngur við Vestmannaeyjar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)