145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[17:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka framsögumanni þessa framsögu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta frumvarp er rætt og ég fagna þeim breytingum sem lagðar eru hérna til. Í fyrsta lagi, og ég hef nefnt þetta atriði þegar málið hefur verið lagt fram fyrr, fagna ég því að ekki er gerð krafa um að ríkisendurskoðandi sé löggiltur endurskoðandi. Hérna stendur hins vegar að ríkisendurskoðandi „skuli hafa þekkingu á reikningsskilum.“

Mig langar til að spyrja: Var það rætt í nefndinni hvaða þekkingu væri um að ræða? Er um að ræða einhverja djúpa þekkingu? Nú hef ég ágæta þekkingu á reikningsskilum. Ég gæti sýnt fram á einhverjar prófgráður í því og eitthvað svoleiðis þó að ég hafi ekki unnið við reikningsskil lengi, ég vann að því hér áður fyrr. Við hvað er átt með þessu? Mér finnst skipta miklu máli að þetta sé vítt hugsað en ekki þröngt, mér finnst það skipta gífurlega miklu máli.

Þá langar mig í sömu andrá að spyrja: Datt nefndinni ekki í hug að breyta heitinu á lögunum og tala um Ríkisendurskoðun, forstöðumann eða forstjóra Ríkisendurskoðunar eða hvað menn vilja hafa í því, en ekki tala um ríkisendurskoðanda?